Erlent

Segir nýjustu bylgju Covid bera Hong Kong ofurliði

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Hong Kong standa í röð eftir skimun. Myndin var tekin í morgun.
Íbúar Hong Kong standa í röð eftir skimun. Myndin var tekin í morgun. AP/Vincent Yu

Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong, segir nýjustu bylgju Covid-19 sem gengur nú yfir eyjuna vera að bera heilbrigðiskerfið þar ofurliði. Smituðum hefur fjölgað hratt þar á undanförnum dögum en í byrjun mánaðarins greindust um hundrað smitaðir á hverjum degi en í gær greindust 1.300.

Í dag var opinberað að 2.071 greindust smitaðir á undanförnum sólarhring, samkvæmt frétt South China Morning Post.

Þá segir í frétt Reuters fréttaveitunnar að dauðsföll séu enn tiltölulega fá í Hong Kong en um níutíu prósent sjúkrarýma vegna Covid eru í notkun. Frá upphafi faraldursins hafa á þriðja tug þúsund manna smitast af Covid-19 og færri en tvö hundruð hafa dáið.

Sérfræðingar vara við því að nýsmituðum geti fjölgað í allt að 28 þúsund á dag í næsta mánuði og er óttast sérstaklega um óbólusett eldra fólk.

Sóttvarnarhótel eru einnig í fullri notkun.

Lam segist ætla að leita til yfirvalda í Kína eftir aðstoð vegna bylgjunnar. Sú aðstoð gæti verið í formi skimunar, hlífðarbúnaðar og annars.

Harðar sóttvarnarreglur eru í gildi í Hong Kong. Hvergi mega fleiri en tveir koma saman og er flestum tegundum fyrirtækja lokað. Þá eru harðar aðgerðir í gildi á landamærum en í um tvö ár hefur Hong Kong verið nánast lokuð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×