Innlent

Kjartan Magnús­son vill annað sæti á lista Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík

Eiður Þór Árnason skrifar
Kjartan Magnússon var einnig í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu þingkosningum.
Kjartan Magnússon var einnig í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu þingkosningum. Aðsend

Kjartan Magnússon, varaþingmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi, gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og sækist eftir öðru sæti listans.

Fram kemur í framboðstilkynningu að Kjartan hafi lengi starfað sem borgarfulltrúi og gjörþekki málefni borgarinnar frá fyrstu hendi. Auk þess hafi hann gengt starfi framkvæmdastjóra hjá Evrópuráðinu árin 2019 til 2021 þar sem hann hafi kynnst ýmsum nýmælum í sveitarstjórnarmálum á alþjóðavettvangi.

„Endurskoða verður þjónustu og rekstur Reykjavíkurborgar frá grunni og gera margvíslegar breytingar til hins betra. Ég tel að reynsla mín og þekking muni nýtast vel í því mikilvæga verkefni," segir Kjartan.

Vill ráðast í veigamiklar umbætur

„Með framboðinu býð ég fram krafta mína og reynslu í þágu Reykvíkinga. Brýnt er að ráðast í veigamiklar umbætur þar sem vinstri meirihlutinn stendur illa að rekstri borgarinnar og stjórnun mikilvægra málaflokka er afar ábótavant. Færa þarf áherslur borgarinnar frá ýmsum gæluverkefnum núverandi meirihluta til grunnþjónustu.

Mjög hefur sigið á ógæfuhliðina í fjármálum og eru skuldir nú komnar yfir 400 milljarða króna, sem jafngildir tólf milljónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í borginni. Greiðsluþrot er fyrirsjáanlegt hjá borginni ef haldið verður áfram á braut óráðsíu og skuldasöfnunar. Auk fjármálanna má nefna húsnæðismál, samgöngumál, skipulagsmál og viðhaldsmál. Þá eru umbætur í skólamálum og málefnum eldri borgara aðkallandi.“

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar fer fram laugardaginn 12. mars.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×