Fótbolti

Stjóri Rangers brjálaður út í boltastráka Celtic

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giovanni van Bronckhorst, knattspyrnustjóri Rangers, ræðir við Bobby Madden sem dæmdi leik Rangers og Celtic í gær.
Giovanni van Bronckhorst, knattspyrnustjóri Rangers, ræðir við Bobby Madden sem dæmdi leik Rangers og Celtic í gær. getty/Mark Runnacles

Giovanni van Bronckhorst, knattspyrnustjóri Rangers, var allt annað en sáttur með framkomu boltastráka Celtic í leik þessara fornu fjenda í skosku úrvalsdeildinni í gær.

Celtic var mun sterkari aðilinn í leiknum og vann 3-0 sigur. Öll mörkin komu í fyrri hálfleik. Reo Hatate skoraði tvö mörk og Liel Abada eitt.

Van Bronckhorst var reiður út í liðið sitt fyrir slaka spilamennsku en hann var einnig pirraður út í boltastrákana á Celtic Park.

Boltastrákarnir tóku sér alltaf drjúgan tíma í að afhenda leikmönnum Rangers boltann þegar hann fór út fyrir og spörkuðu honum stundum í burtu.

Þá gat einn boltastrákurinn ekki stillt sig um að gera grín að Allan McGregor, markverði Rangers, eftir að Hatate skoraði fyrsta mark leiksins á 5. mínútu.

Bobby Madden, dómari leiksins, þurfti að ræða við vallarstarfsmenn til að fá boltastrákana til að haga sér. Það hafði þó engin áhrif á úrslitin.

Með sigrinum í gær komst Celtic upp fyrir Rangers á topp skosku úrvalsdeildarinnar. Einu stigi munar á liðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×