Innlent

Til skammar fyrir stjórnvöld að leyfa þessu að gerast

Snorri Másson skrifar
Kjartan Leifur Sigurðsson í FG og Jón Bjarni Snorrason í Borgarholtsskóla.
Kjartan Leifur Sigurðsson í FG og Jón Bjarni Snorrason í Borgarholtsskóla. Vísir/Egill

Menntaskólanemar segja það til skammar fyrir stjórnvöld að hafa leyft heimsfaraldri að bitna svo illa á ungu fólki.

Með breyttum samkomutakmörkunum í liðinni viku var leikhúsum gert kleift að hefja starfsemi á ný í einhverri mynd, skemmtistaðir mega hafa opið til miðnættis en menntaskólanemar falla á milli skips og bryggju. Áfram engin böll, rétt eins og þetta hefur verið í tæp tvö ár með skammvinnum undantekningum.

„Þetta er bara alveg ömurleg staða. Að þessi þrjú menntaskólaár séu að fara í þetta er bara alveg hræðilegt. Og það er til skammar fyrir stjórnvöld að leyfa þessu að gerast að mínu mati,“ segir Kjartan Leifur Sigurðsson varaformaður NFFG.

„Það er eins og þeim sé bara alveg sama um þessa tíu þúsund nemendur sem eru í framhaldsskóla, það er bara eins og þeir séu ekki til fyrir þeim. Þetta bara virkar ekki að hafa þetta svona áfram, því það mun bara skila sér í nemendum sem eru ekki eins og aðrir í þessu samfélagi og hafa farið í gegnum þetta,“ segir Kjartan.

Allsherjaraflétting takmarkana er boðuð um miðjan mars að óbreyttu en sex til átta vikur eru of langur tími þegar maður er að útskrifast í vor.

„Ég sé bara fólk sem byrjaði í menntó og er bara ekki búið að ná að tengjast neinum eða mynda nein almennileg vinasambönd, sem er kjörið tækifæri til að gera í framhaldsskóla. En ekki núna,“ segir Jón Bjarni Snorrason, formaður nemendafélagsins í Borgarholtsskóla.

Menntaskólar fengu til skamms tíma undanþágu fyrir böllum og vilja það aftur. „Ef þú smitast, kemstu ekki þarna inn, af því að þú þarft hraðpróf. Þannig að þetta virkaði mjög vel og ég veit ekki af hverju þetta ætti ekki að virka núna,“ segir Kjartan Leifur.

Í fréttabrotinu hér að neðan segir frá böllum eins og þau gátu verið haldin í október á síðasta ári:


Tengdar fréttir

Vilja eins metra regluna burt

Tónlistarmenn segja nýjar reglur um samkomutakmarkanir hafa verið vonbrigði. Ótækt sé að halda tónleika eins og núgildandi takmörkunum er háttað og eins metra regluna vilja þeir burt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×