Jódís Skúladóttir steig í gær fram sem fyrrum skjólstæðingur SÁÁ og greindi frá því að starfsmaður samtakanna hafi misnotað hana þegar hún var sautján ára, þremur árum áður en hann tók síðan á móti henni við komuna í meðferð. Umræddur maður starfi enn á vegum samtakanna.
Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur SÁÁ, ræddi málið í viðtali við umsjónarmenn Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í dag en hún sagði leitt að heyra af reynslu Jódísar og að margt sem hún hafi sagt væri umhugsunarvert. Sú mynd sem Jódís hafi dregið upp af meðferðarstarfi SÁÁ hafi þó ekki verið rétt.
„Margt af því sem hún sagði var bara rangt og byggði á úreltum hugmyndum um hvað við gerum í dag í meðferð SÁÁ. Hún var að jöfnum höndum að tala um samtökin en síðan eru við líka með meðferðarstarf sem er sem sagt heilbrigðisþjónusta SÁÁ,“ sagði Ingunn.
Að sögn Ingunnar fór Jódís með rangt mál varðandi nokkra þætti auk þess sem hún gagnrýndi starfsfólk. Ingunn bendir á að áfengis- og vímuefnaráðgjafar séu lögverndað starfsheiti og að mikil fræðsla fari fram áður en starfsleyfi er gefið út.
„Þetta er þriggja ára nám þar sem eru ekki bara nokkrar vikur í fræðslu eins og hún hélt fram, heldur 300 klukkustundir í fræðslu, það eru staðfest próf, mikil handleiðsla og sex þúsund klukkustundir í þjálfun,“ sagði Ingunn.
„Það er mun meiri handleiðsla og starfsþjálfun heldur en margar aðrar umönnunarstéttir og heilbrigðisstéttir frá. Þannig þetta er alrangt, það starfar engin hjá okkur án þess að hann hafi þessi réttindi staðfest af embætti landlæknis,“ sagði Ingunn.
Hún segir mögulegt að önnur staða hafi verið uppi á teningnum þegar Jódís leitaði til samtakanna en núverandi fyrirkomulag hefur verið í gildi frá árinu 2006.
„Þetta eru gamlar og úreltar hugmyndar sem kannski voru við lýði þegar að hún kom til meðferðar fyrir síðustu aldarmót. Hlutirnir hafa þróast, þannig áður en maður fer af stað að tala um svona hvernig starf er inni í heilli stofnun þá þarf kannski að kynna sér málin,“ segir Ingunn.
Hún bendir á að allt meðferðarstarf byggi á gagnreyndum aðferðum og eru þau með áfallamiðaða nálgun.
„Hún er svolítið að líkja þessu við, og setja í sama pott, eins og við værum trúarsamtök jafnvel. Þannig það þarf líka bara að koma fram að við erum að byggja þetta á faglegum grunni. Það var ekki alltaf þannig og þetta bara þróast með tímanum. Það eru miklar breytingar og þróun í þekkingu í meðferðarstarfi og við erum bara stödd þar,“ sagði Ingunn.
Viðtalið við Ingunni í heild sinni má finna hér fyrir neðan: