Innlent

Tré rifnuðu og trampolín fuku

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þetta tré í Vesturbæ Reykjavíkur fékk að kenna á því.
Þetta tré í Vesturbæ Reykjavíkur fékk að kenna á því. Landsbjörg

Björgunarsveitir víðs vegar af landinu hafa haft í nógu að snúast í dag vegna veðurofsans sem gekk yfir landið. Verkefnin snerust að miklu leyti um að koma í veg fyrir tjón af völdum foks.

Gular og appelsínugular viðvaranir hafa verið í gildi í dag vegna veðurs. Mikið hvassviðri fylgdi veðrinu og á hádegi í dag höfðu björgunarsveitir verið kallaðar út í Hveragerði, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum, Grindavík og Hellu, í öllum tilfellum vegna foks á þakplötum eða klæðningum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Þessi braggi rifnaði í sundur.Landsbjörg

Flest útköll voru á höfuðborgarsvæðinu en fram eftir degi sinntu björgunarsveitir þar, og á Suðurnesjum, Vestmannaeyjum og Akranesi útköllum vegna foks.

„Óvenju algeng voru verkefni þar sem þakplötur, klæðningar og þakkantar voru að fjúka. Einnig var tilkynnt um fok á lausamunum, brota glugga, foktjón á byggingasvæðum, grilla að fjúka, já og trampolín, sem má kalla algeng eða hefðbundin verkefni fyrir björgunarsveitir í aðstæðum sem þessum,“ segir í tilkynningunni.

Festa þurfti þessa girðingu.Landsbjörg

Einnig þurfti björgunarsveitafólk að huga að bátum í höfnum í nokkrum tilfellum, aðalega á Suðurnesjum.

Þessi plata var komin á flug.Landsbjörg

Alls voru 21 björgunarsveit kölluð út í dag og komu 151 sjálfboðaliði að verkefnum dagsins til að leysa 91 verkefni, þar á meðal til að binda niður tvö trampolín.

Festa þurfti þakkant í Eyjum.Landsbjörg


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.