Innlent

Mót­mæltu að­gerðum stjórn­valda í friðar­göngu

Árni Sæberg skrifar
Söngkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir tók lagið fyrir mótmælendur.
Söngkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir tók lagið fyrir mótmælendur. Stöð 2/Bjarni

Alþjóðleg friðarganga var haldin í miðbænum í dag á vegum samtakanna Frelsis og ábyrgðar. Þau samtök hafa gert margvíslega athugasemdir við framkvæmdir stjórnvalda í málefnum faraldursins, meðal annars við bólusetningu barna. Á meðal þeirra sem tóku til máls er Ágústa Eva Erlendsdóttir, sem hefur áður boðað til mótmæla vegna bólusetninga barna í gegnum samfélagsmiðla.

Það virðist vera komin hreyfing á málefni faraldursins hér innanlands, eftir að málin þróuðust einfaldlega miklu betur á Landspítalanum en bjartsýnustu spár um innlagnir gerðu ráð fyrir þegar gildandi samkomutakmarkanir voru hertar. 

Yfirlæknir á Landspítala greindi frá því núna síðdegis að enginn sem hafi þegið örvunarskammt hafi þurft að leggjast inn á gjörgæslu í faraldrinum. Bólusetningar skipta þannig sköpum - og gera það áfram ef við ætlum að feta í fótspor sumra nágrannalanda okkar og setja upp afléttingaráætlun fyrir næsta mánuð. 

En við virðumst síðan einnig vera að feta í fótspor nágrannalanda okkar að því leyti að hér eru tiltölulega fjölmenn covid-mótmæli orðin að reglulegum viðburði.

Fréttamaður kíkti niður á Austurvöll í dag og tók nokkra mótmælendur tali, þar á meðal áðurnefnda Ágústu Evu.

Bólusetningar, ertu á móti þeim?

„Ekki svo ég viti til, en ég er á móti því sem er í gangi,“ sagði hún.

„Við höfum mörg hver ákveðnar efasemdir um að þessi nálgun sem er búin að vera í þessu máli sé endilega sú eina rétta,“ segir einn mótmælenda.

Annar mótmælandi furðaði sig á því að fjölmiðlar skyldu mæta á mótmælin.

Ertu ánægð með að við mætum?

„Já, það er kominn tími til að þjóðin fari að vakna. Þetta er ótrúlegt, við höfum verið blekkt,“ segir hann.

Þá fullyrti annar að bóluefni virkuðu einfaldlega ekki líkt og lofað hafði verið. Hann játti þó að þau veittu ákveðna vörn.

„Það þurfa ekki allir þessa vörn, það er bara hluti. Af hverju er verið að auglýsa þetta fyrir alla?“ segir hann.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.