Innlent

Nældi sér í Covid-19 á EM

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ásmundur Einar Daðason er kominn með Covid-19.
Ásmundur Einar Daðason er kominn með Covid-19. Mynd/Ásmundur Einar Daðason

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, fylgdi í fótspor fjölmargra landsliðsmanna í handbolta og nældi sér í Covid-19 er hann skellti sér á EM í handbolta í Ungverjalandi.

Ásmundur Einar greinir frá þessu á Facebook-síðu hans þar sem hann segir að hann hafi skellt sér til Búdapest til að fylgjast með Strákunum okkar í riðlakeppni EM.

„Náði mér því miður í covid-19 líkt og hálft íslenska liðið og hef verið í einangrun í Borgarnesi. Varð frekar slappur með hósta, kvef, hita og höfuðverk en er allur að koma til,“ skrifar Ásmundur.

Kórónuveiran hefur leikið mörg landslið grátt á EM, ekki síst íslenska landsliðið þar sem níu eru fjarverandi úr hópnum eftir að hafa greinst með veiruna. Það kom að vísu ekki að sök í gær þegar liðið vann frækinn sigur á ólympíumeisturum Frakka.

„Veit þetta eru vonbrigði fyrir þá sem höfðu heimildir fyrir því að ég væri í löngu fríi að tana á Tene,“ skrifar Ásmundur og grínast þar með umræðu um skíðaferð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á dögunum.

„Það jákvæða er að þrátt fyrir covid-19 hef ég bæði bragð og lyst þegar kemur að súrmatnum!,“ skrifar Ásmundur Einar að lokum en með færslunni fylgir mynd af honum að gæða sér á þorramat.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×