Eins og flestir Íslendingar ættu að vita vann íslenska karlalandsliðið í handbolta ótrúlegan átta marka sigur gegn feiknasterku liði Frakka í milliriðli I á EM í gær. Íslenska liðið var nokkuð mikið lemstrað eftir að átta reyndustu leikmenn liðsins greindust með kórónuveiruna, og því var sigurinn því mun sætari.
Sigurinn þýðir það að möguleikar Íslands á sæti í undanúrslitum eru góðir. Sigrar í seinustu tveimur leikjum liðsins gegn Króötum á morgun og Svartfellingum á miðvikudag ættu að skila liðinu þangað, en ekki verður kafað of djúpt í alla þá möguleika sem gætu komið upp hér.
Líkt og Íslendingar voru erlendu miðlarnir steinhissa á stórsigri Íslands, og eins og áður segir kallaði L'Equipe leikinn „martraðakennt eftirmiðdegi gegn ótrúlegu hugrekki Íslendinga.“
Franski miðillinn var ekki sá eini sem fjallaði um leikinn á þessum nótum. Bent Nyegaard, handboltasérfræðingur á TV2 í Danmörku fór einnig fögrum orðum um leik Íslendinga.
„Þetta er eitthvað það ótrúlegasta sem ég hef séð,“ sagði Nyegaard.
Island on fire 🔥🔥🔥 https://t.co/FZG0ig6zxx
— Bent Nyegaard (@BentNyegaard) January 22, 2022
„Alls voru átta leikmenn frá vegna kórónuveirunnar, en á ótrúlegan hátt náðu Íslendingarnir að spila gegn „Les Blues“ með hugrekki og hjarta. Magnaður Ómar Ingi Magnússon í hægri skyttu og Viktor Gísli Hallgrímsson í markinu voru meðal þeirra leikmanna sem stigu upp fyrir eldfjallaeyjuna,“ segir í umfjöllun TV2.
Danirnir voru ekki þeir einu sem hrósuðu Viktori Gísla fyrir sinn leik, en Martin Frändesjö á TV10 í Svíþjóð sagði í samtali við Sportsbladet að hann hafi fengið tár í augun.
„Það gekk allt upp. Maður fær bara tár í augun við að sjá svona leik frá markmanninum,“ sagði Frändesjö.
Þrátt fyrir þennan magnaða sigur Íslands í gær er markmiðinu ekki náð enn. Ísland á tvo leiki eftir í milliriðlinum og sá fyrri er gegn Króötum á morgun klukkan 14:30. Hægt verður að fylgjast með beinni textalýsingu frá leiknum hér á Vísi.