Fótbolti

Ragnar leggur skóna á hilluna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ragnar Sigurðsson skoraði jöfnunarmarkið í frægum 2-1 sigri Íslands gegn Englendingum í 16-liða úrslitum á EM 2016.
Ragnar Sigurðsson skoraði jöfnunarmarkið í frægum 2-1 sigri Íslands gegn Englendingum í 16-liða úrslitum á EM 2016. EPA/OLIVER WEIKEN

Fyrrum landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson tilkynnti í dag að knattspyrnuskórnir væru farnir á hilluna.

Frá þessu var fyrst greint í hlaðvarpi Dr. Football í dag og Ragnar staðfesti tíðindin svo í samtali við Fótbolti.net.

Ragnar er fjórði leikjahæsti knattspyrnumaður íslenska landsliðsins frá upphafi, en hann lék alls 97 leiki fyrir Íslands hönd á árunum 2007 til 2020.

Frá árinu 2012 var Ragnar í lykilhlutveki í íslenska landsliðinu og var meðal annars í byrjunarliði liðsins í öllum leikjum Íslands í lokakeppni EM 2016 og HM 2018. Á EM 2016 skoraði Ragnar jöfnunarmark Íslands í frægum sigri liðsins gegn Englendingum í 16-liða úrslitum.

Ragnar hóf feril sinn hjá Fylki árið 2004, en tveimur árum síðar hélt hann til Svíþjóðar þar sem hann lék með Gautaborg í fjögur ár. Með Gautaborg varð Ragnar sænskur meistari og bikarmeistari.

Árið 2011 gekk Ragnar til liðs við FC Köbenhavn þar sem hann varð danskur meistari og bikarmeistari áður en hann hélt til Krasnodar í Rússlandi.

Þá lék hann einnig fyrir Fulham á Englandi og Rubin Kazan og Rostov í Rússlandi, áður en hann hélt aftur til Kaupmannahafnar. Hann lauk atvinnumannaferlinum í Rukh Lviv í Úkraínu áður en hann gekk aftur til liðs við uppeldisfélag sitt, Fylki, seinasta sumar. Ragnar lék alls 280 deildarleiki á ferlinum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.