Innlent

Skoða sölu á Mal­bikunar­­stöðinni Höfða sem er á leið til Hafnar­fjarðar

Atli Ísleifsson skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs. VÍSIR/VILHELM

Borgarráð Reykjavíkurborgar afgreiddi í dag samning um brottflutning Malbikunarstöðvarinnar Höfða frá Sævarhöfða í Reykjavík þar sem til stendur að koma á nýrri byggð. Sömuleiðis var ákveðið að kanna kosti og galla þess að selja hundrað prósenta hlut borgarinnar í Malbikunarstöðinni líkt og kveðið er á í meirihlutasáttmálanum.

 Þetta staðfestir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, í samtali við Vísi. „Þessi samningur kveður á um hvað Malbikunarstöðin Höfði taki með sér, tímasetningar varðandi niðurrif, hvernig stöðin eigi að skilja við sig og annað slíkt.“

Í meirihlutasáttmála Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna var kveðið á að um fundinn yrði nýr staður fyrir Malbikunarstöðina. „Við fundum lóð uppi á Esjumelum, en fyrirtækið fann svo lóð í Hafnarfirði þar sem áður var starfrækt malbikunarstöð. Þar hafi því ýmsir innviðir verið þegar til staðar.“

Þórdís Lóa segir að nú verði ráðist í að skoða kosti og galla sölu borgarinnar á Malbikunarstöðinni Höfða. Hún segist sjálf vera á því að réttast sé að selja fyrirtækið. „Ég er á því að borgin eigi ekki að starfa á svona samkeppnismarkaði, en á sama tíma skiptir auðvitað máli að það ríki sannarlega samkeppni á þessum markaði. En við förum nú í að skoða þetta.“

Í samkomulaginu segir að flutningi á Malbilunarstöðinni skuli vera lokið 28. febrúar 2022, niðurrif á malbikunarstöðinni í apríl 2022, niðurrif á mulningsfæribandi skal vera lokið í júlí 2022 og afurðarsíló og tankar skulu vera settir í sölu eða endurvinnslu og skal því vera lokið sumarið 2023.

Borgin gerir ráð fyrir 20 þúsund manna hverfi á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog, þar sem gert sé ráð fyrir blandaðri byggð með íbúðum og léttri þjónustustarfsemi.


Tengdar fréttir

Bein út­sending: Kynna nýtt 20 þúsund manna hverfi í Reykja­vík

Í dag verður bein útsending á vegum Reykjavíkurborgar til að kynna hugmyndir um nýtt 20 þúsund manna hverfi á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. Útsendingin hefst klukkan 17 og byggist dagskrá á stuttum kynningum fjölmargra sem komið hafa að verkefninu til þessa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×