Innlent

Þriðji þorrinn sem fer í súginn vegna sam­komu­tak­markanna og á­standið súrt

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Jóhannes Stefánsson, eða Jói í Múlakaffi eins og hann er iðulega kallaður.
Jóhannes Stefánsson, eða Jói í Múlakaffi eins og hann er iðulega kallaður. egill aðalsteinsson

Á föstudaginn hefst þriðji þorrinn sem fer í súginn vegna samkomutakmarkanna. Þetta segir veitingamaður í Múlakaffi. Hann vinnur nú að því að koma fimmtán tonnum af súrmat út, en flest öll íþróttafélög hafa ýmist aflýst eða frestað þorrablótum.

Bóndadagurinn er á föstudaginn en dagurinn markar upphaf Þorra. Jóhannes í Múlakaffi græjaði fimmtán til tuttugu tonn af þorramat og svo var samfélaginu skellt í lás.

„Þetta er þriðji Þorrinn sem fer í súginn og maður trúir þessu eiginlega ekki enn,“ sagði Jóhannes Stefánsson, veitingamaður í Múlakaffi.

Nærðu af koma þessu út? 

„Við spyrjum að leikslokum. Þetta verður töff, það er búið að taka gríðarlega mikið af okkur en við reynum að berjast.“

Þorramatur.egill aðalsteinsson

Til þess að koma matnum út og mæta eftirspurn brá Jóhannes á það ráð að selja fólki þorramat heim. Íþróttafélögin hafa ýmist frestað eða aflýst þorrablótum vegna samkomutakmarkanna sem Jóhannes segir mikið tjón.

„Já þetta er vægast sagt verulegt tjón já það eru nánast öll þorrablót farin.“

Hann segist svekktur og ástandið súrt.

„Maður trúði þessu eiginlega ekki þegar löppunum var kippt undan okkur í nóvember og þetta hefur bara verið lamað síðan.“

Björn Bergmann Einarsson er umsjónarmaður kjötborða hjá Krónunni.egill aðalsteinsson

Í síðustu viku hófst sala á þorramat í Krónunni.

„Salan hefur verið alveg stórkostlega góð og er að aukast á milli ára hjá okkur. Fólk fer mikið í hjónabakkana og súrmetið. Þetta eru passlegir bakkar fyrir tvo,“ sagði Björn Bergmann Einarsson, umsjónarmaður kjötborða hjá Krónunni.

Finnið þið fyrir því að fólk ætli að halda þorrann heima í ár vegna samkomutakmarkanna? 

„Já við finnum fyrir því. Það er rosaleg sala og margir að fara að halda þorrann heima.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×