Innlent

Bjarni Haralds­son á Sauð­ár­króki er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Har í versluninni árið 2019 þegar hundrað ára afmæli hennar var fagnað.
Bjarni Har í versluninni árið 2019 þegar hundrað ára afmæli hennar var fagnað. Gunnhildur Gísladóttir

Bjarni Haraldsson, verslunarmaður á Sauðárkróki, er látinn, 91 árs að aldri. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki aðfaranótt gærdagsins.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun. Bjarni fæddist 14. mars 1930, ólst upp á Sauðárkróki og hóf ungur að stunda bifreiðaakstur. 

Gunnhildur Gísladóttir

Hann stofnaði eigið fyrirtæki, Vöruflutninga Bjarna Haraldssonar, og starfaði auk þess með föður sínum, sem stofnaði Verzlun Haraldar Júlíussonar árið 1919 og fór með umboð Olís á Sauðárkróki frá árinu 1930.

Í Morgunblaðinu segir að Bjarni hafi tekið við öllum rekstrinum árið 1970 og staðið vaktina í versluninni fram á síðasta vetur þegar hann fór á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki. Verslunin, sem stendur við Aðalgötu 22, er enn starfandi.

Bjarni var lengi stuðningsmaður og gegndi trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokksins og var útnefndur fyrsti heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar árið 2019.

Fyrri kona Bjarna var María Guðvarðardóttir sem lést árið 1991. Þau skildu. Dætur Bjarna og Maríu eru Guðrún Ingibjörg og Helga. Eftirlifandi eiginkona Bjarna er Ásdís Kristjánsdóttir, en sonur þeirra er Lárus Ingi. 

Bjarni lætur einnig eftir sig fjögur barnabörn og sex barnabarnabörnin.


Tengdar fréttir

Fagna hundrað árum í verslun Haraldar

Þess verður minnst á morgun á Sauðárkróki að eitt hundrað ár eru liðin frá því að Haraldur Júlíusson hóf verslunarrekstur sinn í bænum.

Fær að halda dælunum gangandi um sinn

Kaupmaðurinn Bjarni Har, á Sauðárkróki, fær að halda eldsneytisdælum við verslun sína gangandi um sinn. Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra aflétti takmörkunum sem hún hafði sett en dælurnar eru ekki í samræmi við reglugerðir. Olís leitar nú logandi ljósi að lóð fyrir nýjar dælur í bænum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×