Erlent

Aska þekur Tonga og hamlar hjálparstarfi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Það sem áður var grænt og fallegt er nú öskugrátt.
Það sem áður var grænt og fallegt er nú öskugrátt. AP/Maxar Technologies

Um 200 manns vinna nú hörðum höndum að því að moka ösku af flugbrautinni á alþjóðaflugvelli Tonga því eins og stendur er ekki hægt að koma björgunarfólki og vistum til eyjaklasans.

Neðansjávareldgosið öfluga sem hófst á laugardag hefur þakið eyjaklasann öskulagi og flugmenn frá Ástralíu og Nýja Sjálandi sem hafa flogið könnunarflug yfir eyjarnar segja ómögulegt að lenda á brautinni sem stendur. 

Þá er verið að senda herskip á svæðið en þau munu þó ekki ná á leiðarenda fyrr en eftir nokkra daga, enda er Tonga eyjaklasinn með þeim afskekktustu í heimi. 

Mesta áherslan er lögð á að koma vatni til eyjaskeggja en líklegt er talið að vatnsból séu menguð sökum öskufallsins. 

Enn hefur aðeins eitt dauðsfall verið staðfest eftir að gosið hófst og flóðbylgja af þess völdum skall á eyjunum. Óstaðfestar fregnir hafa síðan borist af tveimur til þremur til viðbótar. 

Rauði Krossinn segir þó að nýjustu fregnir bendi til að eyðilegging af völdum flóðbylgjunnar sé minni en óttast hafi verið í fyrstu en að mikið hreinsunar- og hjálparstarf sé framundan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.