Fótbolti

Niðursveiflan heldur áfram hjá Aroni og félögum

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í leik með Al Arabi sem átt hefur erfitt uppdráttar að undanförnu.
Aron Einar Gunnarsson í leik með Al Arabi sem átt hefur erfitt uppdráttar að undanförnu. Simon Holmes/Getty Images

Al Arabi, lið Arons Einars Gunnarssonar, hefur tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum í katörsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Al Arabi tapaði í dag 2-1 á heimavelli gegn Qatar SC, eftir að hafa unnið langþráðan 1-0 sigur gegn botnliði deildarinnar í síðustu umferð.

Aron lék að vanda allan leikinn í dag, en í stöðu miðvarðar samkvæmt Soccerway.

Qatar SC komst yfir strax á 2. mínútu og jók muninn í 2-0 á 83. mínútu. Norðmaðurinn Adama Diomande, fyrrverandi leikmaður Hull, kom inn á í sínum fyrsta leik fyrir Al Arabi í byrjun seinni hálfleiks og hann minnkaði muninn seint í uppbótartíma.

Al Arabi er nú með 23 stig eftir 15 leiki, í 4. sæti deildarinnar, og heldur áfram að dragast aftur úr efstu tveimur liðunum sem eru Al Duhail með 32 stig eftir 14 leiki og Al Sadd með 31 stig eftir aðeins 11 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×