Erlent

Ein­ræðis­sonurinn fær að bjóða sig fram til for­seta

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ferdinand Marcos yngri er talinn líklegur til að bera sigur úr bítum í forsetakosningum Filippseyja í vor.
Ferdinand Marcos yngri er talinn líklegur til að bera sigur úr bítum í forsetakosningum Filippseyja í vor. EPA-EFE/ROUELLE UMALI

Einræðisherrasonurinn Ferdinand Marcos yngri fær að bjóða sig fram til forseta Filippseyja þrátt fyrir að hafa verið dæmdur fyrir skattsvik, á meðan hann var í opinberu embætti. 

Þetta úrskurðaði yfirkjörstjórn Filippseyja, COMELEC, í morgun eftir að kvörtun hafi borist til kjörstjórnarinnar vegna forsetaframboðs Ferdinands Marcos. Kvartendur óskuðu eftir því að Marcos yrði ekki leyft að bjóða sig fram til forseta og sögðu hann óhæfan til framboðs vegna þriggja áratuga gamals dóms yfir honum fyrir skattsvik. Dómurinn ætti, að þeirra mati, að banna honum framboð til opinberra embætta ævilangt. 

Dómarar á vegum yfirkjörstjórnar féllust ekki á þetta og sögðu kvörtunina ekki byggða á nægilega tryggum grunni. Marcos var árið 1995 sakfelldur fyrir að hafa ekki greitt tekjuskatt og fyrir að hafa ekki skilað skattskýrslum á meðan hann var í opinberu embætti á árunum 1982 til 1985. Árið 1997 sýknaði áfrýjunardómstóll hann af því að hafa ekki greitt tekjuskatt en staðfesti sakfellingu fyrir að hafa ekki skilað skattskýrslum. Að mati COMELEC þýðir það að Marcos hafi ekki gerst sekur um skattsvik.

Marcos er spáð góðu gengi í forsetakosningunum, sem munu fara fram 9. maí. Marcos er sonur fyrrverandi einræðisherrans Ferdinands Marcos og Imeldu Romualdez Marcos. Talið er líklegt að Marcos verði arftaki Rodrigo Duterte, sem hefur verið forseti landsins frá árinu 2016. 

Dóttir Duterte, Sara Duterte, hefur boðið sig fram til varaforseta Marcos en hú hefur verið borgarstjóri Davao síðan 2016. 


Tengdar fréttir

Óskaarftaki Duterte hættir við forsetaframboð

Christopher „Bong“ Go, öldungadeildarþingmaðurinn sem Rodrigo Duterte forseti Filippseyja vildi að tæki við af sér hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram til forseta. Nú er því enginn í framboði sem núverandi ríkisstjórn styður.

Sara Duterte fer í fram­boð

Sara Duterte, dóttir Rodrigos Duterte, hefur tilkynnt framboð sitt til varaforseta Filippseyja. Stjórnmálaskýrendur höfðu margir búist við að hún byði sig fram til forseta landsins.

Dóttir Duterte hætt í borgarstjóraslag rétt fyrir lok framboðsfrests

Sara Duterte-Carpio, dóttir forseta Filippseyja, sækist ekki lengur eftir endurkjöri sem borgarstjóri í Davao. Hún dró framboð sitt til baka án skýringa aðeins nokkrum dögum áður en frestur til að skila inn framboði vegna forsetakosninga á næsta ári rennur út.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×