Erlent

Harry freistar þess að fá að greiða fyrir lögregluvernd í Bretlandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þrátt fyrir að þau séu ekki lengur starfandi meðlimir konungsfjölskyldunnar, þarfnast Harry og Meghan enn öryggisgæslu.
Þrátt fyrir að þau séu ekki lengur starfandi meðlimir konungsfjölskyldunnar, þarfnast Harry og Meghan enn öryggisgæslu. epa/Peter Foley

Harry Bretaprins hefur farið fram á að dómstólar taki fyrir ákvörðun breska innanríkisráðuneytisins um að neita honum um að greiða fyrir lögregluvernd þegar hann og fjölskylda hans heimsækja Bretland.

Prinsinn hefur viljað greiða fyrir öryggisgæslu sína og fjölskyldu sinnar, líkt og hann gerir í Bandaríkjunum þar sem hann er nú búsettur, en ráðuneytið hefur hafnað óskum hans um að fá að borga fyrir gæslu lögreglu.

Harry segir hins vegar að öryggisteymið sem gætir fjölskyldunnar í Bandaríkjunum hafi ekki nægar heimildir og upplýsingar til að geta veitt henni örugga vernd í Bretlandi og því þurfi lögreglan að koma að málum. Á sama tíma vilji hann ekki að skattgreiðendur endi uppi með reikninginn.

„Bretland verður alltaf heimaland Harry og land þar sem hann vill að eiginkona hans og börn séu örugg,“ sagði talsmaður prinsins í yfirlýsingu til AP. „Án verndar lögreglu er áhættan hins vegar of mikil.“

Harry langar að heimsækja Bretland með fjölskyldu sinni en amma hans og pabbi, Elísabet drottning og Karl Bretaprins, hafa enn ekki hitt dóttur hans Lilibet. Prinsinn er hins vegar uggandi um öryggi fjölskyldunnar. Í fyrra, þegar hann snéri einn heim til að vera viðstaddur afhjúpum styttu til minningar um móður sína, var bifreið hans elt af blaðamönnum gulu pressunnar. Móðir hans, Díana prinsessa, lést við sömu kringumstæður í París árið 1997.

Fulltrúar Harry segja að jafnvel þótt hlutverk hans innan og fyrir konungsfjölskylduna hafi breyst, hafi staða hans sem einn meðlima hennar ekki gert það. Né heldur hafi ógnir sem stafa að honum og fjölskyldu hans minnkað.

Harry og eiginkona hans, leikkonan Meghan Markle, hafa gert milljónasamninga við bæði Netflix og Spotify, sem prinsinn hefur sagt að eigi meðal annars að fjármagna öryggisgæsluna sem þau þurfa á að halda til að tryggja öryggi þeirra og barnanna, Archie og Lilibet.

Guardian greindi frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.