Fótbolti

Athletic Bilbao í úrslit eftir endurkomusigur gegn spænsku meisturunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Athletic Bilbao mætir Real MAdrid í úrslitum spænska Ofurbikarsins á sunnudaginn.
Athletic Bilbao mætir Real MAdrid í úrslitum spænska Ofurbikarsins á sunnudaginn. Stringer/Anadolu Agency via Getty Images

Athletic Bilbao snéri taflinu við er liðið mætti Spánarmeisturum Atlético Madrid í undanúrslitum spænska Ofurbikarsins í kvöld. Liðið vann 2-1 sigur eftir að hafa lent undir og mætir því Real Madrid í úrslitum bikarsins.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og lítið um opin marktækifæri. Atlético Madrid var meira með boltann, en hvorugu liðinu tókst að skora fyrir hlé og því var staðan 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Svipaða sögu er að segja af síðari hálfleik þar sem báðum liðum gekk illa að skapa sér opin marktækifæri. 

Það er alveg þangað til að Thomas Lemar tók hornspyrnu fyrir Atlético Madrid eftir rúmlega klukkutíma leik. Spyrnan fann kollinn á Joao Felix sem skallaði boltann í stöngina og þaðan í bakið á Unai Simon, markverði Athletic Bilbao, og þaðan skaust boltinn í netið. 

Leikmenn Athletic Bilbao neyddust til að færa sig framar á völlinn til að freista þess að skora jöfnunarmarkið og það tókst á 77. mínútu þegar Yeray Alvarez skallaði hornspyrnu Iker Munian í netið.

Fjórum mínútum síðar átti Inigo Martinez svo skalla í átt að marki Atlético Madrid sem Jan Oblak varði. Nico Williams náði frákastinu og kom boltanum í netið og breytti stöðunni þar með í 2-1 fyrir Bilbao.

Þetta reyndist seinasta mark leiksins og Athletic Bilbao er á leið í úrslit þar sem spænsku risarnir Real Madrid bíða þeirra. Úrslitaleikurinn fer fram á King Fahd vellinum í Sádí-Arabíu á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×