Innlent

„Þetta er gjör­sam­lega út í hött“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Vísir

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er alls ekki sáttur við svar stjórnar Persónuverndar sem stofnunin sendi Íslenskri erfðagreiningu fyrr í dag. Hann segir Persónuvernd hafa sýnt ómældan sóðaskap og hyggst leita til dómstóla.

Stjórn Persónuverndar birti bréf í dag vegna ummæla Kára um ákvörðun Persónuverndar. Forsaga málsins er sú að Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að vinnsla Landspítalans og Íslenskrar erfðagreiningar á persónuupplýsingum í tengslum við rannsókn þeirra á Covid-19 samrýmdist ekki persónuverndarlögum.

„Við lítum svo á að það sé alveg ómældur sóðaskapur af þessu stjórnvaldi að þegar við erum á bólakafi í að reyna að hjálpa sóttvarnayfirvöldum að takast á við faraldurinn að þau sjái ástæðu til að leggjast í frumkvæðisathugun á því hvernig þessi hjálp hefur verið reidd fram,“ segir Kári í viðtali í Reykjavík Síðdegis. 

Kári áður fordæmt Persónuvernd

Kári hefur áður sagt að Persónuvernd haldi því fram að stjórnvaldið viti betur en landlæknir, sóttvarnalæknir og yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, um vinnuna sem fram fór þegar blóðsýni voru tekin úr Covid-sjúklingum í apríl á síðasta ári.

 „Við skulum orða það þannig að þetta er ekki beinlínis gjörningur sem gerir það að verkum að það eigi að vera auðvelt fyrir fólk að leggjast á árarnar þegar þörf krefur. Þetta er gjörsamlega út í hött og ekki nokkur möguleiki að halda því fram að þarna hafi Persónuvernd verið að stjórna sínu samfélagi. Þetta bréf bendir til þess að stjórn Persónuverndar sé enn þá ruglaðari en ég hélt,“ segir Kári.

Hlusta má á viðtalið við Kára í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir

Persónuvernd svarar Kára

Stjórn Persónuverndar hefur birt bréf sem hún sendi í dag á Íslenska erfðagreiningu, vegna ummæla Kára Stefánssonar, forstjóra fyrirtækisins um ákvörðun Persónuverndar sem Kári hefur gagnrýnt mjög.

Lögfræðingar virðuleg stétt en skilja ekki vísindarannsóknir

Það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir Íslenska erfðagreiningu að sögn Kára Stefánssonar ef úrskurður Persónuverndar um að fyrirtækið hafi brotið lög stendur. Sóttvarnalæknir segir úrskurðinn ekki breyta viðhorfi hans til fyrirtækisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×