Fótbolti

Fyrir­liði Ís­lands: Ef ég get gefið af mér er ég meira en viljugur til að gera það

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason var fyrirliði Íslands í dag.
Arnór Ingvi Traustason var fyrirliði Íslands í dag. Getty

„Hann var frekar kaflaskiptur. Við byrjuðum sterkt, náðum þessu marki en örum svo á hælana og gerum ekki það sem við ætluðum okkur að gera og lögðum upp með,“ sagði fyrirliði Íslands, Arnór Ingvi Traustason, eftir 1-1 jafnteflið liðsins við Úganda fyrr í dag.

Arnór Ingvi bar fyrirliðaband Íslands í fyrsta skipti er íslenska karlalandsliðið mætti Úganda í vináttulandsleik í Tyrklandi í dag. Arnór sagðist þokkalega sáttur með leikinn og nýliðana sem spreyttu sig í dag en líkt og vanalega í leikjum Íslands í janúar var fjöldi leikmanna

„Strax í seinni hálfleik fannst mér við þokkalega sprækir og jöfnuðum þá. Fórum í návígi og fórum að vinna seinni bolta,“ sagði Arnór Ingvi um frammistöðu Íslands í síðari hálfleik.

„Þetta var skemmtilegt, hef aldrei verið fyrirliði áður. Ekkert nema heiður að fá að vera fyrirliði landsliðsins. Ég geri þetta glaður aftur,“ sagði Arnór Ingvi um þann heiður að bera fyrirliðaband Íslands.

„Þetta var frekar beinskeytt hjá þeim, mikið um langa bolta á bakvið vörnina. Þeir voru að gera þetta erfitt fyrir okkur, var mjög mikið fram og til baka. Við leyfðum þeim það samt, við settum ekki nægilega pressu á boltamanninn hjá þeim svo það var smá okkur að kenna að stýra leiknum ekki betur. Þeir eru með fínt lið en við hefðum átt að gera betur,“ sagði fyrirliðinn um leik dagsins.

„Þetta er tvennt ólíkt. Maður fann aðeins fyrir þessu í verkefninu í nóvember, var þá með eldri mönnum í hópnum. Maður er vanur að vera með menn eins og Kára (Árnason), Ragga (Ragnar Sigurðsson) og Aron Einar (Gunnarsson) að öskra á mann og stýra þessu. Nú er þetta maður sjálfur svo maður þarf að axla ábyrgð og gefa af sér. Er meira en tilbúinn til þessa, maður er að átta sig á því núna, ef ég get gefið af mér er ég meira en viljugur til að gera það,“ sagði Arnór Ingvi aðspurður hvernig það væri að vera með reynslumestu leikmönnum liðsins.

Um nýliðana

„Maður finnur að orku stigið í hópnum er mjög gott. Menn eru klárir, allir að að mæta 10-15 mínútum fyrir mat, fundi og hitt og þetta. Menn taka þessu alvarlega og æfingarnar eru góðar. Nú er bara vonandi að einhver geti stimplað sig inn í þessu verkefni. Það eiga allir framtíðina fyrir sér, þurfa bara að taka sénsinn.“

Að lokum var Arnór Ingvi spurður út í herbergisfélaga sinn Ingvar Jónsson en þeir eru báðir uppaldir hjá Njarðvík.

„Það er alltaf gott að vera með Gvara, hann er geggjaður og við höfum þekkst lengi,“ sagði Arnór Ingvi að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×