Fótbolti

Börsungar geta skráð Torres eftir að Umtiti tók á sig launalækkun

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Samuel Umtiti skrifaði undir nýjan samning við Barcelona í dag.
Samuel Umtiti skrifaði undir nýjan samning við Barcelona í dag. Quality Sport Images/Getty Images

Spænska stórveldið Barcelona þarf að fara ýmsar krókaleiðir til að fá nýja leikmenn skráða í félagið, en Börsungar eru í gríðarlegri skuld. Varnarmaðurinn Samuel Umtiti skrifaði í dag undir nýjan samning þar sem hann tekur á sig launalækkun.

Það að Umtiti taki á sig launalækkun þýðir það að nú getur Barcelona skráð Ferran Torres sem leikmann félagsins, en Torres gekk til liðs við Börsunga á dögunum frá Manchester City fyrir um 46 milljónir punda.

Flestir höfðu gert ráð fyrir því að Umtiti væri á leið frá Barcelona. Varnarmaðurinn er ekki beint sá vinsælasti meðal stuðningsmanna og á yfirstandandi tímabili hefur hann komið við sögu í einum leik. Seinustu þrjú tímabil á undan því sem nú stendur yfir hefur leikmaðurinn aðeins leikið 50 leiki fyrir Barcelona.

Hann hefur nú hins vegar skrifað undir nýjan samning við félagið sem gildir til ársins 2026. Í tilkynningu frá félaginu þess efnis kemur einnig fram að Umtiti hafi tekið á sig launalækkun næsta eina og hálfa árið sem fyrri samningur átti að gilda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×