Fótbolti

Berglind mætt í besta liðið í Noregi

Sindri Sverrisson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skrifar undir samninginn. Með henni er þjálfari Brann, Alexander Straus.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skrifar undir samninginn. Með henni er þjálfari Brann, Alexander Straus. Brann.no

Berglind Björg Þorvaldsdóttir hefur skrifað undir samning til tveggja ára við Noregsmeistarana í fótbolta eftir að hafa síðast leikið með Hammarby í Svíþjóð.

Berglind, sem er 29 ára, mun leika með Brann í Noregi næstu misserin. Brann, sem þá hét reyndar Sandviken, vann norsku deildina á síðustu leiktíð og endaði fjórum stigum fyrir ofan næsta lið, Rosenborg.

„Hún hefur sýnt að hún skorar mikið af mörkum og það hefur hún gert í gegnum allan sinn feril,“ segir Alexander Straus, þjálfari Brann.

Berglind lék með Breiðabliki, ÍBV og Fylki hér á landi og skoraði 137 mörk í 190 leikjum í efstu deild. Hún hefur einnig leikið með Verona á Ítalíu, PSV í Hollandi, AC Milan á Ítalíu, Le Havre í Frakklandi og nú síðast Hammarby.

Þá hefur hún leikið 57 A-landsleiki og skorað í þeim níu mörk, meðal annars markið sem tryggði Íslandi endanlega sæti á EM í Englandi næsta sumar.

„Brann er besta liðið í Noregi og þegar það hafði samband þurfti ég ekki að hugsa mig um áður en ég sagði já. Ég er hæstánægð með að vera hér og ætla að hjálpa liðinu að verða betra og taka ný skref,“ sagði Berglind við heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×