Innlent

Hefur áhyggjur af vetrinum og vill varnarvegg til að sporna við frekari skemmdum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Eins og sjá má er húsið stórskemmt.
Eins og sjá má er húsið stórskemmt.

„Þetta er eiginlega meira tilfinningalegt tjón heldur en eitthvað annað,” segir Sigrún Harpa Harðardóttir, sem varð fyrir gríðarlegu eignartjóni í óveðrinu á fimmtudag. Fjárhús hennar við Grindavík stórskemmdist og hún þakkar fyrir að hafa farið með allar 25 kindur sínar í skjól áður en óveðrið skall á. Hún hefur áhyggjur af veðrinu og vill að varnarveggur verði settur upp á svæðinu.

„Langafi minn byggði fjárhúsið fyrir mörgum árum síðan og elsti parturinn er að verða 100 ára gamalt. Þetta er búið að vera í fjölskyldunni í mörg ár.”

Sigrún Harpa birti færslu á Facebook þar sem hún óskaði eftir afgangs bárujárni. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og hún er komin með nóg til þess að endurreisa húsið. Framkvæmdir hefjast um leið og lægir og hún vonast til að það verði komið upp að nýju áður en sauðburður hefst.

„Fyrir um tveimur árum kom svona flóð en þá skemmdist húsið ekki eins mikið. Það var varnarveggur þarna áður en hann var tekinn niður,” segir hún og bætir við að húsið hafi staðið af sér allt veður þegar veggurinn var til staðar. Hún hefur áhyggjur af vetrinum og mun fara fram á að varnarveggurinn verði endurreistur. Hins vegar skoði hún að standsetja húsið annars staðar síðar meir.

„Þetta var rosalegt sjokk þegar við sáum þetta þarna um daginn en við erum svona öll að koma til, þannig að við keyrum þetta bara áfram á jákvæðninni og reynum að vinna þetta saman. Það er farið að hvessa núna en við vonum það besta.”



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×