Innlent

„Ég þrái að lifa þann dag að ég þurfi ekki að standa í þessu máli“

Snorri Másson og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Erla Bolladóttir.
Erla Bolladóttir. Stöð 2

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að íslensk stjórnvöld muni una dómi héraðsdóms, sem gerir Erlu Bolladóttur kleift að höfða mál gegn ríkinu fyrir endurupptökudómstól. Erla gæti nú fengið tækifæri til að krefjast skaðabóta fyrir Hæstarétti, en hún var á sínum tíma fundin sek um rangar sakargiftir.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að málin hafa löngum varpað skugga yfir íslenskt samfélag. Hún telur að aðeins lítill hluti þeirra fjalli um fjárhagslegar bætur.

„Það er mín einlæga von að þessum málum verði hægt að ljúka þannig að við getum kvatt þessi mál sem samfélag,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Aðspurð um hvað taki næst við segir Erla Bolladóttir að samkvæmt hefðbundnu verklagi kæmi hún til með að sækja um endurupptöku á málinu. Þá yrði endurupptökudómstóll að úrskurða í því máli. Erla telur að það myndi ganga vel, enda séu rök með endurupptöku.

„Ég er auðvitað ánægð með þessa dómsuppkvaðningu í fyrradag, mjög svo. Ég er auðvitað ánægð með að ráðherra sér ekki ástæðu til þess að áfrýja þessum dómi. Ég átti von á hverju sem var úr þeirri átt, þannig að ég er ánægð með það,“ segir Erla.

Ertu ekki orðin langþreytt á þessu máli?

Jú, ég er auðvitað orðin langþreytt. Þetta er búið að vera í rauninni mitt aðalstarf í ansi mörg ár. Ég þrái að lifa þann dag að ég þurfi ekki að standa í þessu máli. 

Líður dagur án þess að þú hugsir um þetta mál?

„Ég efast um það, það kemur alltaf eitthvað,“ segir Erla Bolladóttir.


Tengdar fréttir

Erla Bolla vann orrustu: „Ég fer ekki að hætta núna“

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi rétt í þessu úr gildi úrskurð endurupptökunefndar sem hafnaði beiðni Erlu Bolladóttur um endurupptöku máls hennar árið 2017. Erla Bolladóttir kallaði „yes!“ þegar niðurstaðan var kunngjörð í dómsal í morgun. Svo streymdu tárin.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.