Erlent

Covid dreifist hratt í borgum Indlands og meðal barna

Samúel Karl Ólason skrifar
Indversk stúlka bólusett.
Indversk stúlka bólusett. AP/Mahesh Kumar A.

Kórónuveiran er aftur komin í tiltölulega mikla dreifingu á Indlandi þessa dagana og þá sérstaklega í borgum landsins. Innlagnir eru þó enn tiltölulega fáar og delta-afbrigðið, sem greindist fyrst á Indlandi, er enn ráðandi í landinu en einungis 2.630 hafa smitast af ómíkron-afbrigðinu, svo vitað sé.

Embættismenn telja þó að ómíkron-afbrigðið sé í meiri dreifingu en vitað sé, samkvæmt frétt Indian Express.

Indverjar tilkynntu í morgun að 90.928 hefðu greinst með Covid-19 á undanförnum sólarhring og hefur fjöldinn aukist fjórfalt frá því í upphafi árs, samkvæmt frétt Reuters fréttaveitunnar.

Vitað er til þess að 325 hafi dáið síðasta sólarhringinn. Meirihluti þeirra sem smitast sýna lítil eða engin einkenni og innlagnir eru fáar. Einn hefur dáið eftir að hafa smitast af ómíkron-afbrigðinu en sá var 74 ára gamall maður með sykursýki.

Embættismenn óttast þó hvað gerist þegar dreifingin verður meiri á landsbyggð Indlands þar sem heilbrigðisþjónusta er ekki jafn góð og í borgunum. Í mörgum borgum landsins er búið að herða sóttvarnaraðgerðir og samkomubönn á undanförnum dögum.

Í frétt Times of India segir að óbólusett börn undir sex ára aldri séu að smitast í auknu mæli á undanförnum dögum og á þeim aldurshópi hafi innlögnum á sjúkrahús fjölgað töluvert.

Bólusetning táninga hófst í vikunni og stendur næst til að bólusetja tólf til fjórtán ára börn og svo yngri börn í kjölfarið. Flest börn sýna þó lítil einkenni.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.