Innlent

Agnieszka styður Ólöfu Helgu og vill aftur verða vara­for­maður

Atli Ísleifsson skrifar
Agnieszka Ewa Ziółkowska og Ólöf Helga Adolfsdóttir.
Agnieszka Ewa Ziółkowska og Ólöf Helga Adolfsdóttir. Efling

Agnieszka Ewa Ziółkowska, formaður Eflingar, segist ekki ætla að bjóða sig fram til embættis formanns Eflingar. Hún lýsir yfir stuðningi við framboð Ólafar Helgu Adolfsdóttur og segist vilja starfa sem varaformaður félagsins.

Agnieszka segir frá þessu í færslu á Facebook í gær, en Agnieszka Ewa, sem var varaformaður Eflingar, tók við embætti formanns félagsins eftir afsögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur í haust. Ólöf Helga tók þá við embætti varaformanns, en hún tilkynnti um framboð sitt til formanns í gær.

Agnieszka segir að þær Ólöf hafi leitt Eflingu í gegnum strembna tíma, tryggt þjónustu við félagsfólk og lagt drög að næsta starfsári sem muni verða annasamt bæði innan hreyfingarinnar og út á við.

„Margir hafa spurt mig hvort ég vilji gefa kost á mér í embætti formanns. Svarið við því er að ég er kjörin varaformaður fram til ársins 2023. Það er það embætti sem ég bauð mig fram til og hef áhuga á að sinna. Ég hef verið ábyrg fyrir vinnustaðaeftirliti Eflingar og tekið þátt í baráttu gegn brotum á réttindum launafólks. Sjálf hef ég upplifað slík réttindabrot og vil halda þeirri baráttu áfram sem varaformaður í náinni áframhaldandi samvinnu við Ólöfu Helgu.

Ég vil gjarnan vinna með nýrri stjórn Eflingar sem varaformaður að þessum verkefnum og öllum þeim verkefnum sem okkar bíða á þessu ári. Ég ber fullt traust til Ólafar Helgu og lýsi yfir stuðningi við framboð hennar til formanns Eflingar.“

Auk Ólafar Helgu hefur Guðmundur Jónatan Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, tilkynnt um framboð til formanns.


Tengdar fréttir

Vill stilla til friðar innan Eflingar og býður sig fram til formanns

Guðmundur Jónatan Baldursson, stjórnarmaður í stéttarfélaginu Eflingu, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formennsku félagsins. Þetta staðfestir hann í samtali við fréttastofu. Sólveig Anna Jónsdóttir sagði af sér embætti formanns í lok október á síðasta ári. Guðmundur segist vilja koma á friði innan félagsins.

Býður sig fram til formanns Eflingar

Ólöf Helga Adolfsdóttir, varaformaður Eflingar og fyrrverandi hlaðmaður hjá Icelandair, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Eflingu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.