Innlent

Ráð­leggur skóla­stjórn­endum í erfiðri stöðu að sofa nóg

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Arnheiður Helgadóttir er skólastjóri Klettaskóla.
Arnheiður Helgadóttir er skólastjóri Klettaskóla. Vísir

Skólastjóri Klettaskóla, sem stóð í miðjum síðasta mánuði frammi fyrir því að hundrað starfsmenn og nemendur skólans voru í einangrun eða sóttkví, ráðleggur öðrum stjórnendum sem standa í sömu sporum að sofa nóg. Þrátt fyrir mannekluna féll aðeins niður einn kennsludagur.

Arnheiður Helgadóttir er skólastjóri í Klettaskóla í Reykjavík, en Klettaskóli er sérskóli á grunnskólastigi fyrir fötluð börn og ungmenni. Þrátt fyrir mikla manneklu segir Arnheiður að skólastarfið hafi farið vel af stað í morgun.

„Það hófst þannig að við byrjuðum daginn á því að fara vel yfir hverjir væru mættir og hverjir ekki. Þegar búið var að fara yfir það allt saman þá kom í ljós að það voru 35 starfsmenn sem voru forfallaðir, og þar af ellefu sem ýmist eru í einangrun eða sóttkví. Á móti voru 25 nemendur líka forfallaðir, sem þýddi það að við gátum púslað daginn saman og hafið kennslu,“ sagði Arnheiður í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Þrátt fyrir góða stöðu sagði hún að ekki yrði hjá því komist að fella niður einstaka sundtíma.

Helsta ráðið sé að sofa nóg

Arnheiður segist sjálf hafa viljað fresta skólabyrjun í janúar, líkt og sóttvarnalæknir lagði til en heilbrigðisráðherra féllst ekki á.

„Gaman að segja frá því að krakkarnir voru alveg ótrúlega glaðir að koma í skólann, þó við hefðum viljað að við færum eftir sóttvarnalækni, þá er þetta börnunum náttúrulega gríðarlega mikilvægt. Sérstaklega okkar börnum og þeirra fjölskyldum, að við höldum skólanum okkar opnum.“

Líkt og áður sagði gekk vel að halda skólastarfi gangandi þrátt fyrir mikil forföll í desember. Arnheiður er með einfalt ráð til stjórnenda í sömu stöðu.

„Kannski bara helst það að vegna þess að þetta er gríðarlega mikið álag, að standa í þessu, þá ráðlegg ég öllum stjórnendum sem eru að skipuleggja þetta og rekja, að sofa vel. Það er mitt helsta ráð.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.