Innlent

Rikka er alsæl sem bifreiðasmiður og bílamálari

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Rikka Sigríksdóttir, bílamálari og bifreiðasmiður en hún stefnir á að taka meistaranna líka í bifreiðasmiðinn. Hún er 21 árs.
Rikka Sigríksdóttir, bílamálari og bifreiðasmiður en hún stefnir á að taka meistaranna líka í bifreiðasmiðinn. Hún er 21 árs. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það færist sífellt í vöxt að ungar konur læri að verða bílamálarar eða bílasmiðir. Gott dæmi um það er Rikka Sigríksdóttir, 21 árs, sem var að útskrifast með hæstu einkunn, sem bifreiðasmiður. Áður hafði hún lært bílamálun þar sem hún fékk líka hæstu einkunn.

Rikka vinnur hjá fyrirtækinu GB tjónaviðgerðir, sem er staðsett við Dragháls í Reykjavík. Þarf starfar hún við fjölbreytt verkefni og gengur í öll störf á verkstæðinu. Rikka útskrifaðist fyrir jól sem bifreiðasmiður og fékk fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur.

En hvað gera bifreiðasmiðir?

„Við réttum og lögum beyglur og skiptum um ónýta hluti, allt sem málarinn í rauninni gerir ekki,“ segir Rikka og bætir við.

„Ég er bílamálari líka, ég tók verðlaunin líka þar, fékk hæstu einkunnir þar. Ég er að sjálfsögðu stolt af þessum árangri en ég held að mamma og pabbi séu stoltari.“

Rikka segir fjölbreytileikann skemmtilegasta við störfin sín, hún sé sjaldan að gera það sama. Það sé vinnuandinn góður, sem skipti miklu máli.

Erlendur Karl Ólafsson, eigandi GB tjónaviðgerða er mjög stoltur af Rikku og árangri hennar í náminu, auk þess sem hann gefur henni sína bestu einkunn, sem starfsmanni fyrirtækisins.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Já, okkur konunum fer fjölgandi í stéttinni. Við fengum nema í haust, sem er stelpa líka, þannig að við erum að koma sterkt inn,“ segir Rikka.

En hvað segja strákarnir á verkstæðinu yfir þessu?

„Ég held að þeim þyki bara fínt að hafa sætar skvísur hjá sér,“ segir Rikka og hlær.

Erlendur Karl, eigandi verkstæðisins og meistari Rikku er hæstánægður með hana og hennar störf?

„Hún er alveg frábær, dugleg og kraftmikil og stendur sig alveg stórkostlega, hún hefur þetta í blóðinu,“ segir Erlendur Karl.

Rikka fékk fullt af verðlaunum þegar hún útskrifaðist fyrir jól, sem bifreiðasmiður úr Borgarholtsskóla.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×