Innlent

Sögu­lega djúp lægð í kortunum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lægðirnar gerast varla dýpri en sú sem er spáð síðar í vikunni.
Lægðirnar gerast varla dýpri en sú sem er spáð síðar í vikunni. Vísir/Vilhelm

Lægðin sem nú stefnir á landið úr vestri stefnir í að verða fádæma djúp. Ef frá eru taldir fellibyljir er ekki vitað um margar lægðir hér á landi sem eru dýpri.

Þetta kemur fram á veðurfræðivefnum blika.is. Þar segir að yfir suðurríkjum Bandaríkjanna sé nú lægð sem valdi miklu vetrarveðri á austurströnd Bandaríkjanna í dag. Lægðin komi til með að halda áfram upp með ströndinni og suður yfir Nýfundnaland.

„Þar mætir heit lægðin mjög köldu lofti og dýpkar hratt á miðvikudag. Á fimmtudagsmorgun er lægðamiðjunni svo spáð vestur af Faxaflóa. Standist spárnar þá verður þrýstingur í lægðarmiðju í kringum 925 hPa,“ segir á vefnum.

Þar kemur einnig fram að jafn djúpar lægðir séu afar fátíðar, og raunar sé ekki vitað um margar dýpri lægðir hér á landi en þá sem væntanleg er, ef frá eru taldir fellibyljir.

„Þrjár lægðir keppast um titilinn dýpsta lægð í nágrenni Íslands og jafnframt um titilinn dýpsta lægð í heimi. Þann 2. desember 1929 mældist þrýstingur 920 hPa á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Þetta var löngu fyrir tíma gervihnatta og ómögulegt að vita hversu djúp lægðin var, þó verður að teljast líklegt að lægðin hafi verið eitthvað dýpri.

Svo liðu rúmlega 50 ár þar til ný lægð lét að sér kveðja. Sú kom upp að landinu þann 15.des 1986. Þá er talið að þrýstingur í lægðamiðju hafi farið niður í 914 hPa. Kort sem sýnir þá lægð má sjá hér að neðan sem unnið er úr ERA Interim endurgreiningunni og er fengið af brunni Veðurstofunnar,“ segir á blika.is.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.