Fótbolti

Tuchel: Þetta var rautt spjald á Mane

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Thomas Tuchel í leiknum í dag
Thomas Tuchel í leiknum í dag EPA-EFE/VICKIE FLORES

Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea, var handviss í sinni sök um hvaða ákvörðun dómarinn hefði átt að taka í upphafi leiks þegar Sadio Mane gerðist brotlegur.

Tuchel var til viðtals eftir leikinn og kom meðal annars inn á atvikið í upphafi leiks þegar Sadio Mane fór harkalega í Cesar Azpilicueta.

„Ég er mjög hrifinn af Mane sem leikmanni en ef þið munið eftir fyrri leiknum þá munið þið hversu fljótur sami dómari var að gefa okkur rautt spjald í leiknum. Ég hef sagt áður að svona ákvörðun geti drepið leik en þetta er rautt spjald, afsakið, þetta er rautt spjald“, sagði Tuchel, ekki sáttur við Anthony Taylor dómara leiksins.

Hann var líka spurður út í stöðuna á Romelu Lukaku.

„Það er fundur á mánudaginn. Ég heyrði bara af þessu á föstudaginn svo við erum í smá biðstöðu. Þetta er ekki í fyrsta sinn á mínum ferli þar sem kemur upp sambærilegt atvik. Þetta snýst ekkert um hvort ég sé persónulega móðgaður eða ekki. Þetta var bara of mikill hávaði og við tókum hann úr liðinu til þess að vernda liðið og halda einbeitingu. Það var enginn tími fyrir þetta mál og þess vegna tæklum við það á morgun“, sagði Tuchel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×