Innlent

Skotið á íbúð í Kórahverfi á nýársmorgun

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Skotið var á fjölbýlishús í Baugakór í Kópavogi í gærmorgun.
Skotið var á fjölbýlishús í Baugakór í Kópavogi í gærmorgun. Stöð 2

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar skotárás sem gerð var á íbúð í Kórahverfi í gærmorgun. Um er að ræða sjöundu skotárásina á heimili í hverfinu frá því í byrjun desember. 

Lögreglu barst tilkynning um skotárás í Baugakór í Kópavogi um tíu í gærmorgun. Skotið hafði verið á eldhúsrúðu í fjölbýlishúsi á meðan íbúar voru heima.

„Það bendir til þess að hafi verið skotið á eldhúsglugga íbúðarinnar,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við fréttastofu. 

Skotið hafnaði í eldhúsrúðunni og fór ekki alla leið inn í íbúðina. 

„Skotið hefur fallið þarna inn á milli glerja.“

Allt bendi til að loftbyssu hafi verið beitt.

Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.Vísir/Vilhelm

„Það bendir allt til þess að þetta sé einhvers konar loftbyssa, af einhverju tagi. Miðað við kúluna,“ segir Skúli. 

Íbúi tilkynnti málið til lögreglu og samkvæmt færslu á Facebook-hópi Kórahverfis voru börn inni íbúðinni að horfa á barnatímann þegar árásin var gerð.

Nokkuð hefur verið um árásir af þessu tagi í hverfinu að undanförnu.

„Þau eru búin að vera nokkur í hverfinu. Mér sýnist vera sex mál núna í desember.“

Ekki sé ljóst hver beri ábyrgð á árásunum en ekki ólíklegt að einn sé ábyrgur.

„Við bara vitum það ekki en það er ekki ólíklegt. Eina sem ég get sagt er að þetta er í rannsókn. Frekari bollaleggingar með það er ekki hægt að fara fram með núna,“ segir Skúli.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×