Hann segir að frá því um kvöldmatarleytið í gær hafi slökkvilið farið í um sjötíu útköll á slökkvibílum og í um áttatíu sjúkraflutninga.
„Við vorum að fara í allt mögulegt. Það kom upp eldur í tveimur húsum – í Kópavogi og Grafarvogi. Það voru gróðureldar hér og þar. Meðal annars kom upp eldur í sinu fyrir ofan Bauhaus í Úlfarsárdal og annar fyrir neðan Korpúlfsstaði. Svo var tilkynnt um eld í ruslatunnum, póstkössum og fleiru. Ég hef aldrei upplifað annað eins á mínum ferli.“
Upp úr miðnætti biðlaði varðstjóri hjá slökkviliði til almennings að hætta að skjóta upp flugeldum vegna allra þeirra elda sem voru að kvikna á víð og dreif um alla borg. Í samtali við fréttastofu lýsti hann ástandinu sem „skelfilegu“.
„Þetta voru stórir gróðureldar sumir hverjir. Það kviknaði í lúpínubreiðum [í Grafarvogi] og þetta var bara hörkumikið bál og erfitt að eiga við. Þetta var ekki bara í Reykjavík heldur veit ég að Akranes var í hörkueldum og Selfyssingarnir voru líka,“ segir varðstjóri hjá slökkviliðinu.