Innlent

Kári vill fimm daga ein­angrun

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Kári Stefánsson telur ráðlegt að stytta einangrunartíma Covid-smitaðra niður í fimm daga. Samkvæmt núgildandi reglum þurfa einkennalausir, en Covid-smitaðir, að vera í sjö daga einangrun.
Kári Stefánsson telur ráðlegt að stytta einangrunartíma Covid-smitaðra niður í fimm daga. Samkvæmt núgildandi reglum þurfa einkennalausir, en Covid-smitaðir, að vera í sjö daga einangrun. Vísir/Vilhelm

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur skynsamlegast að stytta einangrun Covid-smitaðra niður í fimm daga. Kórónuveiran hafi dreifst hratt um samfélagið og óráðlegt sé að halda fólki í einangrun í lengri tíma. Reglunum var breytt í dag en nú þurfa Covid-smitaðir aðeins að vera í sjö daga einangrun.

„Mér fyndist ekki vitlaust að stytta hana niður í svona fimm daga vegna þess að það sem við erum að gera með þessu er ósköp einfaldlega að minnka líkurnar á því að smitin breiðist út, en vegna þess hvað þau eru að breiðast mikið út núna, þá finnst mér aðeins of mikið í látið að halda fólki í einangrun í sjö til tíu daga,“ segir Kári.

Kári segir að ómíkron-afbrigðið sé búið að taka yfir, bæði á Íslandi og víða annars staðar í heiminum. Það valdi því að ekki verði pláss fyrir önnur afbrigði veirunnar, eins og til dæmis delta-afbrigðið sem allsráðandi var í sumar, en ómíkron-afbrigðið er síður talið valda alvarlegum veikindum en fyrri afbrigði kórónuveirunnar.

„Það sem að þessi veira er raunverulega að gera er að fylgja lögmálum þróunarfræðinnar. Það er að segja að sú tegund sem fjölgar sér hraðast, hún tekur yfir og þá er ekki pláss fyrir hinar. Þannig að ég held að við getum verið nokkuð viss um að þessari farsótt - af þessari veiru - kemur til með að ljúka tiltölulega fljótlega,“ segir Kári Stefánsson


Tengdar fréttir

Einangrun stytt í sjö daga

Einangrunartími fyrir fólk með Covid-19 hér á landi hefur verið styttur í sjö daga úr tíu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins.

Stefnir í að einangrun styttist í sjö daga

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir reiknar með að það skýrist í dag hvort einangrun einkennalítilla og -lausra með Covid-19 verði stytt í sjö daga. Þá munu í dag koma út reglur um vinnusóttkví sem fyrirtæki af öllum stærðum eiga að geta lagað sig að.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×