Fótbolti

Ísland mætir Spáni í mars

Sindri Sverrisson skrifar
Einn leikmanna íslenska landsliðsins spilar á Spáni en það er hinn ungi Andri Lucas Guðjohnsen sem leikur með varaliði Real Madrid.
Einn leikmanna íslenska landsliðsins spilar á Spáni en það er hinn ungi Andri Lucas Guðjohnsen sem leikur með varaliði Real Madrid. vísir/vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir einu besta landsliði heims þegar liðið sækir Spánverja heim í lok mars.

KSÍ greindi frá því í dag að samið hefði verið við Spánverja um að leika vináttulandsleik á Spáni þann 29. mars. Ekki hefur verið ákveðið á nákvæmlega hvaða leikvangi verður spilað.

Spánverjar eru í 7. sæti heimslista FIFA, hafa einu sinni orðið heimsmeistarar og þrisvar sinnum Evrópumeistarar. Þeir komust í undanúrslit á EM síðasta sumar en töpuðu fyrir Ítalíu í vítaspyrnukeppni.

Gerðu jafntefli síðast þegar þau mættust

Spánn og Ísland hafa níu sinnum áður mæst og hefur Ísland unnið einn af þeim leikjum, 2-0 á Laugardalsvelli í undankeppni EM 1992.

Liðin gerðu 1-1 jafntefli síðast þegar þau mættust, í undankeppni EM 2008, þar sem Emil Hallfreðsson skoraði mark Íslands. Spánn komst hins vegar á mótið og varð Evrópumeistari.

KSÍ vinnur að því að fá annan vináttulandsleik í mars, til að nýta sem best landsleikjagluggann á dagatali FIFA.

Í janúar mætir Ísland liðum Úganda og Suður-Kóreu í fyrsta sinn, en þá mun Arnar Þór Viðarsson ekki geta valið leikmenn nema að félög þeirra leyfi það, og því verður landsliðshópurinn þá að mestu skipaður leikmönnum af Norðurlöndum sem þá eru ekki á miðju keppnistímabili með sínu liði.

Á árinu 2022 er ekki leikið í undankeppni stórmóts heldur er þá heil leiktíð í Þjóðadeildinni og svo lokakeppni HM í Katar sem fram fer í lok ársins. 

Ísland spilar í B-deild Þjóðadeildarinnar og mætir Ísrael í fyrsta leik 2. júní, því næst Albaníu 6. júní og svo Rússlandi 10. júní. Liðið mætir svo Ísrael aftur 13. júní, Rússlandi 24. september og Albaníu 27. september.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.