Tottenham er enn taplaust undir stjórn Antonio Conte í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en varð að láta sér nægja 1-1 jafntefli gegn Southampton í dag þrátt fyrir að hafa ellefu menn gegn tíu allan seinni hálfleik.
James Ward-Prowse kom Southampton yfir á 25. mínútu og heimamenn virtust í góðum málum þar til á 41. mínútu þegar Son Heung-Min fékk stungusendingu í gegnum vörn þeirra.
Mohamed Salisu braut á Son innan teigs og fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Harry Kane skoraði svo úr vítinu af miklu öryggi, í þriðja deildarleiknum í röð.
Kane virtist svo hafa komið Tottenham yfir snemma í seinni hálfleik en hann var dæmdur afar naumlega rangstæður eftir myndbandsskoðun.
Fleiri mörk voru ekki skoruð og Tottenham missti því West Ham upp fyrir sig og er nú í 6. sæti með 30 stig, en með tvo leiki til góða á liðin fyrir ofan sig. Southampton er með 21 stig í 13. sæti.