Íslenski boltinn

Leiknismenn fundu pakka undir trénu

Sindri Sverrisson skrifar
Sindri Björnsson er mættur aftur í Leiknistreyjuna.
Sindri Björnsson er mættur aftur í Leiknistreyjuna. Twitter/@LeiknirRvkFC

Leiknismenn fengu góða jólagjöf í dag þegar tilkynnt var að miðjumaðurinn Sindri Björnsson væri kominn aftur heim í Breiðholtið. Hann skrifaði undir samning til tveggja ára við Leikni.

Sindri, sem er 26 ára gamall knattspyrnumaður, lék síðast með Leikni árið 2016 áður en hann gekk í raðir Vals. Leiknismenn höfðu greinilega gaman af því að geta kynnt hann aftur sem sinn leikmann í dag.

Sindri var í leikmannahópi Vals sem varð Íslandsmeistari árin 2017 og 2018 en lék innan við helming leikja liðsins og fáa leiki í byrjunarliði. 

Hann var lánaður til ÍBV seinni hluta tímabilsins 2019 og hefur svo leikið með Grindavík í næstefstu deild síðustu tvö ár.

Alls hefur Sindri leikið 49 leiki í efstu deild og 100 í næstefstu deild.

Leiknismenn, sem héldu sæti sínu í efstu deild á síðustu leiktíð í fyrsta sinn í sögu félagsins, höfðu áður endurheimt annan uppalinn leikmann í miðverðinum Óttari Bjarna Guðmundssyni sem sneri heim frá ÍA.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.