Innlent

Grind­víkingar orðnir þreyttir á skjálfta­hrinunni

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Frá gosstöðvunum í Fagradalsfjalli í veðurblíðunni dag.
Frá gosstöðvunum í Fagradalsfjalli í veðurblíðunni dag. Stöð 2/Egill

Jarðskjálftavirkni er enn mikil á Reykjanesi þó hafa jarðskjálftarnir í dag mælst minni að stærð en síðustu daga. Bæjarstjóri Grindavíkurbæjar segir segir íbúa ýmsu vana en margir séu þó þreyttir á ástandinu.

Stærsti jarðskjálftinn það sem af er degi kom um hálf níu leytið í morgun og mældist hann 3,6 en upptök hans voru vestan við Kleifarvatn. Frá miðnætti hafa mælst hátt í tvö þúsund jarðskjálftar á svæðinu.

Upptök stærsta skjálftans í dag voru vestan við Kleifarvatn.Stöð 2/Egill

Grindvíkingar hafa fundið vel fyrir jarðskjálftunum síðustu daga „Okkur líður nú bara svona bærilega eftir atvikum má segja. Auðvitað hefðum við vonast til þess að þessi jarðskjálftahrina myndi ekki koma og þessir jarðskjálftar fari að endurtaka sig en við þessu mátti samt búast og við erum ýmsu vön þannig að við tökum þessu bara af æðruleysi,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.Vísir/Egill

Þá eiga sumir bæjarbúar erfitt með svefn, sér í lagi lagi þegar jörð skelfur á nóttunni.

„Ég finn alveg fyrir því að fólk er alls ekki ánægt með stöðuna. Þetta fer samt misjafnlega í fólk, sumum er svona nokkurn veginn sama en öðrum líður verr. Þannig að það er svona svolítið að endurtaka sig tímabilið sem við áttum hérna fyrir mörgum mánuðum og það hefði mátt sleppa því en svona er þetta bara. Við búum við þetta.“

Fólk taki ástandið inn á sig

Bogi Adolfsson formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns stóð í ströngu þegar gosið í Fagradalsfjalli stóð yfir. Hann segist líkt og aðrir bæjarbúar hafa fundið vel fyrir skjálftunum.

Bogi Adolfsson formaður björgunarsveitarinnar ÞorbjörnsStöð 2/Egill

„Þetta er nú ekkert skemmtilegt sko. Frekar leiðinlegt að þetta skuli vera að koma aftur en við ráðum nú ekkert við þetta.“

Þá taki bæjarbúar þessu misjafnlega. Þó minni virkni í dag sé ákveðinn léttir.

„Fólk er farið að taka þetta inn á sig og svona. “



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×