Íslenski boltinn

Ævintýrið á Meistaravöllum: Forspár Arnar, lætin og Sölvi bað til guðs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Víkingur vann dramatískan sigur á KR, 1-2, í næstsíðustu umferð Pepsi Max-deildar karla í haust eins og þjálfari liðsins, Arnar Gunnlaugsson, hafði spáð.
Víkingur vann dramatískan sigur á KR, 1-2, í næstsíðustu umferð Pepsi Max-deildar karla í haust eins og þjálfari liðsins, Arnar Gunnlaugsson, hafði spáð. stöð 2 sport

Enginn stuðningsmaður Víkings mun gleyma sunnudeginum 19. september 2021 í bráð. Þá vann Víkingur KR, 1-2, á dramatískan hátt og steig þar með stórt skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum. Farið var ítarlega yfir ævintýrið í Meistaravöllum í lokaþætti Víkinga: Fullkominn endir.

Í bílnum á leiðinni á Meistaravelli ræddi Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, við Gunnlaug Jónsson. Hann spáði því að Víkingar myndu vinna 1-2 í þrusuleik, úrslitin myndu ráðast undir lokin og þetta yrði eins konar bíómyndaendir. Og Arnar reyndist heldur betur sannspár.

Víkingur vann leikinn 1-2 á eins dramatískan hátt og mögulegt er. Kjartan Henry Finnbogason kom KR yfir á 9. mínútu en Atli Barkarson jafnaði með glæsilegu marki sjö mínútum seinna. Þegar þrjár mínútur voru eftir kom Helgi Guðjónsson Víkingum svo yfir.

Klippa: Víkingur: Fullkominn endir - Sigurinn á KR

„Ég held ég geti talað fyrir alla sem voru inn á að við trúðum því hundrað prósent að við værum að fara að skora. Við vissum ekki hvernig það myndi koma en vissum að það myndi koma. Við erum að fara að vinna,“ sagði Halldór Smári Sigurðsson, leikjahæsti leikmaður Víkings, í þættinum.

En ekki var allt búið enn þótt Víkingar hefðu náð forystunni. KR-ingar fengu vítaspyrnu í uppbótartíma og í kjölfarið sauð upp úr og Kjartan Henry og Þórður Ingason voru reknir út af eftir stympingar.

„Þá var ég eiginlega búinn á því. Ég bað bara til guðs,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings, sem hafði farið af velli á 75. mínútu.

Þegar menn voru orðnir rólegri gat Pálmi Rafn Pálmason loks tekið vítið. Ingvar Jónsson sá hins vegar við honum, varði spyrnuna og tryggði Víkingi sigurinn. Á sama tíma vann FH Breiðablik og Víkingur var því í bílstjórasætinu fyrir lokaumferðina.

Þar tryggði Víkingur sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í þrjátíu ár með sigri á Leikni á heimavelli. Víkingar kórónuðu svo fullkomið tímabil með því að verða bikarmeistarar eftir sigur á Skagamönnum, 3-0, í úrslitaleik Mjólkurbikarsins.


Víkingar - Fullkominn endir er heimildaþáttaröð í fjórum hlutum um Íslands- og bikarmeistara Víkings. Áskrift að Stöð 2 Sport kostar frá kr. 3.990 og má kaupa áskrift á stod2.is.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.