Innlent

Líkur á gosi aukist með hverjum degi sem virkni helst ó­breytt

Árni Sæberg skrifar
Flogið yfir eldstöðvarnar í Fagradalsfjalli.
Flogið yfir eldstöðvarnar í Fagradalsfjalli. Vísir/RAX

Um þrjú þúsund skjálftar hafa mælst við eldstöðina í Fagradalsfjalli í dag. Það er svipaður fjöldi og hefur mælst dag hvern frá 21. desember. Líkur á eldgosi aukast með hverjum deginum sem líður með óbreyttu ástandi, að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir þó að engin skýr merki hafi komið fram í dag sem setji Veðurstofuna í sérstaka viðbragðsstöðu. 

Skjálftarnir séu ekki teknir að grynnka og engir lágtíðniskjálftar hafi mælst, en það myndi auka líkur á eldgosi töluvert.

Elísabet segir að staðan sem nú er uppi á Reykjanesskaga minni um margt á stöðuna sem ríkti í aðdraganda gossins í Fagradalsfjalli. „Þannig það eru alveg ágætar líkur á að það verði gos,“ segir hún.

Í dag líkt og undanfarna daga mældist skjálftahviða við eldstöðina sem stóð yfir í tæpa klukkustund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×