Fótbolti

Sonur Diego Simeone að gera frábæra hluti í Seríu A

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giovanni Simeone fagnar marki með Hellas Verona á móti Juventus á þessu tímabili.
Giovanni Simeone fagnar marki með Hellas Verona á móti Juventus á þessu tímabili. EPA-EFE/EMANUELE PENNACCHIO

Giovanni Simeone hefur skapað sér nafn í ítölsku deildinni á þessu tímabili en hann hefur farið á kostum með liði Hellas Verona.

Giovanni, sem hefur gælunafnið El Cholito, hefur kannski verið þekktastur hingað til fyrir að vera sonur Diego Simeone, þjálfara Atletico Madrid, en nú eru það afrekin inn á vellinum sem kom honum í fréttirnar.

Giovanni er núna þriðji markahæsti leikmaðurinn í Seríu A, rétt á eftir þeim Ciro Immobile og Dusan Vlahovic.

Simeone er kominn með 12 mörk í fyrstu 17 leikjunum með Hellas Verona og er að auki með þrjár stoðsendingar. Verona liðið er kannski bara í þrettánda sæti en eitt af markahæstu liðum deildarinnar.

Simeone kom á láni til Cagliari frá Fiorentina 2019 en Cagliari keypti hann í lok lánstímabilsins. Cagliari ákvað síðan að senda hann á lán til Hellas Verona í haust eftir að hann náði sér ekki alveg á strik á síðustu leiktíð.

Simeone skoraði ekki í fyrstu þremur leikjum sínum með Hellas Verona en fór síðan í gang og var meðal annars með fernu í sigri á Lazio. Hann skoraði síðan tvennu á móti bæði Juventus og Venezia.

Hann er þegar búinn að jafna sín bestu tímabil í Seríu A en hann skoraði 12 mörk í 35 leikjum fyrir Genoa 2016-17 og aftur tólf mörk í 37 leikjum með Cagliari tímabilið 2019-20. Mörkin urðu hins vegar aðeins sex í fyrra.

Giovanni Simeone er fæddur árið 1995 í Madrid en faðir hans var þá að spila með liði Atlético Madrid. Hann er bæði með spænskt og argentínskt vegabréf en valdi það að spila fyrir Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×