Innlent

Hrina lítilla skjálfta mælst við Fagradalsfjall en ekki merki um gosóróa

Eiður Þór Árnason skrifar
Gossvæðið í Geldingadölum. Ljósmyndin er úr safni.
Gossvæðið í Geldingadölum. Ljósmyndin er úr safni. Vísir/vilhelm

Um klukkan fimm í dag hófst hrina smáskjálfta norðaustur af Geldingadölum og voru skjálftarnir orðnir um 340 talsins klukkan 22:30. Um er að ræða frekar litla skjálfta á um það bil sjö til átta kílómetra dýpi en sá stærsti mældist 1,8 að stærð klukkan 20:28.

Skjálftarnir tengjast kvikuhreyfingum á svæðinu en ekki eru merki um gosóróa.

„Það er kvikusöfnun í gangi í jarðskorpunni við Fagradalsfjall og þetta er kannski ekkert ósvipað þeirri smáskjálftavirkni sem sást þremur vikum fyrir gosið. 

Það er ómögulegt að segja hvort eitthvað sé á leiðinni upp en við teljum allavega litlar líkur á því að það verði næstu klukkutímana. En maður veit samt aldrei nákvæmlega með þessa jörð,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Fram kemur í Facebook-færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands að nokkuð lífleg jarðskjálftahrina hafi byrjað í Fagradalsfjalli um kvöldmatarleytið. Eitthvað virðist hafa dregið úr virkninni á níunda tímanum.

Um er að ræða nær samfellda smáskjálftavirkni þar sem engin skjálfti hefur mælst yfir 2 að stærð. Að sögn hópsins virðist eiga sér stað á svipuðum slóðum og innskotið sem olli gosinu í Geldingadölum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×