Innlent

Dómur þyngdur í Dan­mörku yfir ís­lenskum manni sem nauðgaði dóttur sinni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn var handtekinn í lögregluaðgerðum í bænum Benissa á Alicante á Spáni í október 2020.
Maðurinn var handtekinn í lögregluaðgerðum í bænum Benissa á Alicante á Spáni í október 2020. LÖGREGLAN Á SPÁNI

Eystri Landsréttur í Danmörku hefur þyngt dóm yfir íslenskum karlmanni, sem var sakfelldur fyrir að misnota og nauðga barnungri dóttur sinni ítrekað, um tvö ár. Kvað dómurinn það upp að manninum skyldi vísað úr landi að lokinni afplánun og fær hann aldrei að stíga fæti inn í Danmörku aftur. 

DV greindi frá þessu í dag og vísaði þar til dóms sem féll í Eystri Landsrétti Danmerkur. Maðurinn er sagður hafa verið dæmdur fyrir að hafa nauðgað dóttur sinni ítrekað á fjögurra ára tímabili, frá því hún var fimm ára þar til hún varð níu ára gömul. 

Hann neitaði sök í málinu en fyrr á þessu ári var hann dæmdur í undirrétti í fjögurra ára fangelsi. Hann hafi þá áfrýjað dómnum til Eystri Landsréttar, sem þyngdi dóminn. 

Samkvæmt frétt DV er um sama mann að ræða og var handtekinn á Spáni í október 2020 en hann var þá á flótta vegna rannsóknar danskra yfirvalda. Hann hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald 2. júní 2020 í Danmörku en þar sem hann bjó þá á Spáni hafi verið gefin út evrópsk handtökuskipun á hendur honum.  

Dönsk lögregla hafi haft málið til rannsóknar frá árinu 2018 eftir að sveitarfélagið Nyborg tilkynnti um ofbeldið. 

Rannsóknin hafi leitt það í ljós að á árunum 2006 til 2010, þegar maðurinn hafði umgengni við dóttur sína, hafi hann ítrekað neytt hana til að hafa við sig kynferðismök. Brotin hafi átt sér stað á Íslandi og í Danmörku. Þá var hann einnig sakaður um að hafa beitt dóttur sína ofbeldi til að ná vilja sínum fram gegn henni, sem hann var svo einnig sakfelldur fyrir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×