Fótbolti

Barcelona valtaði yfir Köge á meðan Hof­fen­heim vann Arsenal ó­vænt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekkert vesen á Barcelona í kvöld.
Ekkert vesen á Barcelona í kvöld. Twitter/@FCBfemeni

Lokaumferð C-riðils Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu fór fram í kvöld. Evrópumeistarar Barcelona unnu 5-0 sigur á HB Köge á meðan Hoffenheim vann óvæntan 4-1 sigur á Arsenal.

Sigur Barcelona kom engum á óvart og eftir þrjú mörk í fyrri hálfleik var ljóst að Danirnir myndu eyða síðari hálfleik í að lágmarka skaðann. Börsungar bættu við tveimur mörkum til viðbótar og unnu á endanum 5-0 sigur.

Mörkin dreifðust milli fimm leikmanna, þeirra Leilu Ouahabi, Fridolinu Rolfo, Alexiu Putellas, Ingrid Engen og Lieke Martens.

Mörkin hefðu hæglega getað verið fleiri en Barcelona átti samtals 40 skot í kvöld, þar af 20 á markið.

Þó Arsenal hafi verið komið áfram í útsláttarkeppnina þá var samt búist við sigri Lundúnaliðsins er það heimsótti Þýskaland í kvöld.

Eftir að staðan var jöfn í hálfleik virðist sem Skytturnar hafi ekki mætt út í síðari hálfleik en liðið fékk á sig þrjú mörk á fimm mínútna kafla. Staðan orðin 4-1 þegar klukkutími var liðinn og reyndist það lokatölur leiksins.

Barcelona endar á toppi C-riðils með fullt hús stiga og þar á eftir kemur Arsenal með níu stig líkt og Hoffenheim sem er með lakari markatölu. Þá vann Arsenal fyrri leik liðanna 4-0 og hafði því líka betur í innbyrðisviðureignum liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×