Fótbolti

Ætla sér að koma boltanum í netið gegn PSG

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ásta Eir Árnadóttir í snjóbyl þegar Breiðablik tek á móti Real Madríd á Kópavogsvelli í síðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Ásta Eir Árnadóttir í snjóbyl þegar Breiðablik tek á móti Real Madríd á Kópavogsvelli í síðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Vísir/Vilhelm

Breiðablik leikur í kvöld sinn síðasta leik í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið hefur náð í eitt stig í leikjunum fimm sem búnir eru en á þó enn eftir að skora mark.

Breiðablik sækir Frakklandsmeistara París Saint-Germain heim í kvöld og þó liðið sé ekki að gera sér vonir um sigur ætla þær sér að enda riðlakeppnina með því að koma boltanum eins og einu sinni í net andstæðinganna.

Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði liðsins, ræddi við fjölmiðla fyrir leik dagsins ásamt Ásmundi Arnarssyni, þjálfara liðsins. Leikurinn verður líkt og aðrir leikir riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu sýndur beint á Youtube-rás DAZN ásamt því að vera í beinni textalýsingu á Vísi.

„Við mjög þéttar og skipulagðar sem er mjög mikilvægt á móti liði eins og PSG,“ sagði Ásta Eir um leik Breiðabliks og PSG á Kópavogsvelli. Þann leik unnu Frakkarnir 2-0 en Agla María Albertsdóttir fékk frábært færi til að koma Blikum á blað.

Agla María fékk besta færi Blika er PSG heimsótti Kópavogsvöll.Vísir/Vilhelm

„Við getum ekkert verið út um allt á vellinum, við þurfum að vera mjög skipulagðar og varnarsinnaðar. Ég held að það sé það sem við tökum með okkur, að vera mjög skipulagðar og vinna saman sem lið og sjá svo hvað gerist,“ bætti fyrirliðinn við.

Engan bilbug er að finna á Blikum þó PSG hafi verið einkar sannfærandi í heimaleikjum sínum í riðlakeppninni og ekki enn fengið á sig mark.

„Úrslitin hafi ekki verið eins og við höfum viljað í keppninni, en við neitum að enda þetta öðruvísi en að skora eitt mark og reyna að stríða PSG,“ sagði Ásta Eir áður en þjálfari hennar fékk orðið.

„Við klárum ekki riðlakeppnina án þess að skora mark, það verður helsta markmiðið núna. Þó að fá lið hafi skorað gegn PSG að undanförnu ætlum við að gera það á morgun,“ sagði Ásmundur að endingu á blaðamannafundi Breiðabliks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×