Innlent

Óvissustigi á Seyðisfirði aflétt

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Óvissustigi almannavarna hefur nú verið aflétt á Seyðisfirði.
Óvissustigi almannavarna hefur nú verið aflétt á Seyðisfirði. Vísir/Arnar

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi hefur ákveðið að aflýsa óvissustigi á Seyðisfirði vegna skriða sem féllu í desember 2020. 

Þetta segir í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi. Þar segir að síðasta árið hafi verið unnið að uppbyggingu á bráðavörnum ásamt uppsetningu á mælitækjum sem nemi hreyfingar í hlíðum ofan Seyðisfjarðar. 

Í haust hafi mælst hreyfing á hrygg ofan við Búðará og hættustigi lýst yfir og nokkur hús rýmd. Lítil sem engin hreyfing hefur mælst á hryggnum síðan í byrjun nóvember. Mjög vel er þó fylgst með aðstæðum á Seyðisfirði og verður almannavarnastig endurmetið ef hætta vex. Til dæmis ef veðurspár eru óhagstæðar eða miklar hreyfingar mælist í hlíðum ofan Seyðisfjarðar. 

Á morgun, fimmtudaginn 16. desember, verður svo haldinn íbúafundur í bænum til kynningar á þessum áformum. Sveitarstjóri Múlaþings mun stýra fundinum og mun fulltrúi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra flytja kynningu og sitja fyrir svörum ásamt fulltrúa frá Veðurstofu. 

Fundurinn verður haldinn á Teams og hefst klukkan 17. Til hans verður boðað á heimasíðu sveitarfélagsins Múlaþings. 


Tengdar fréttir

Óljóst hversu lengi húsin sem standa eftir verða rýmd

Rýming húsa á Seyðisfirði sem hefur varað í rúma viku vegna skriðuhættu var aflétt að hluta til í gær en íbúar fjögurra húsa af níu fengu að snúa aftur á heimili sín. Íbúafundur fór fram á Seyðisfirði í gær þar sem íbúum var tilkynnt um málið en óljóst er hversu lengi húsin fimm sem eftir standa verða rýmd.

Húsin sem næst standa varnar­garðinum á­fram rýmd

Útreikningar á virkni leiðigarða og safnþróar undir óstöðugum hrygg milli stóru skriðunnar sem féll á Seyðisfjörð í desember á síðasta ári og Búðarár liggja fyrir. Líkur eru taldar á að varnargarðar og safnþró leiði skriðuna til sjávar en þar sem enn mælist hreyfing á hryggnum hefur rýmingu á nokkrum húsum á Seyðisfirði ekki verið aflétt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×