Napoli á leið í útsláttakeppnina en Leicester á leið í Sambandsdeildina

Napoli tryggði sér sæti í útsláttakeppni Evrópudeildarinnar á kostnað Leicester.
Napoli tryggði sér sæti í útsláttakeppni Evrópudeildarinnar á kostnað Leicester. Francesco Pecoraro/Getty Images

Ítalska liðið Napoli er á leið í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir 3-2 sigur gegn Leicester í lokaumferð riðlakeppninnar í kvöld. Leicester þarf hins vegar að gera sér það að góðu að taka slaginn í Sambandsdeildinni.

Adam Ounas kom heimamönnum í Napoli yfir strax á fjórðu mínútu áður en Eljif Elmas tvöfaldaði forystuna tuttugu mínútum síðar.

Jonny Evans minnkaði muninn fyrir Leicester á 27. mínútu og Kiernan Dewsbury-Hall jafnaði metin rúmum tíu mínútum fyrir hálfleik og því var staðan 2-2 þegar gengið var til búningsherbergja.

Eljif Elmas kom heimamönnum svo yfir á nýjan leik á 53. mínútu eftir stoðsendingu frá Giovanni Di Lorenzo.

Gestirnir frá Leicester reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin og fengu svo sannarlega færin til þess. James Maddison nagar sig líklega í handabökin fyrir svefninn, en hann fékk sannkallað dauðafæri fljótlega eftir þriðja mark heimamanna en skot hans í stöngina og út.

Lokatölur urðu því 3-2, Napoli í vil. Sigurinn þýðir það að Napoli lyfti sér upp í annað sæti riðilsins og tryggði sér þar með sæti í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Leicester þarf hins vegar að gera sér þriðja sæti riðilsins að góðu sem gefur sæti í útsláttakeppni Sambandsdeildarinar. Leicester var í efsta sæti riðislins fyrir leikinn, og því hefði jafntefli dugað þeim.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira