Innlent

Vongóð um samtal við stjórnvöld um eingreiðslu í desember

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þuríður segir skiljanlegt að margir reiði sig á eingreiðsluna.
Þuríður segir skiljanlegt að margir reiði sig á eingreiðsluna. Vísir/Vilhelm

„Það skiptir gríðarlega miklu fyrir fólk að fá þessa eingreiðslu sem hefur komið frá ríkinu undanfarin tvö jól. Þörfin hefur ekki minnkað,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Margir örorkulífeyrisþegar spyrja sig nú að því hvort þeir muni fá 50 þúsund króna eingreiðslu í desember líkt og í fyrra en ekkert hefur heyrst frá stjórnvöldum hvað þetta varðar, enda nýbúið að mynda nýja ríkisstjórn eftir kosningar.

Á síðasta ári var greiðslan greidd út 14. desember, til 24 þúsund örorku- og endurhæfingalífeyrisþega. Full greiðsla nam 50 þúsund krónum en var greidd út í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hver og einn hafði fengið greiddan lífeyri á árinu.

„Ég geri mér vonir um að stjórnvöld komi til móts við afar bág kjör fatlaðs fólks og greiði út veglega eingreiðslu til örorkulífeyrisþega,“ segir Þuríður. Hún segist vera vongóð um að eiga samtal við stjórnvöld um málið á næstunni.

„Þrýstingur er það sem hefur orðið til þess að þetta hefur náðst í gegn; að við höfum þrýst á um nauðsyn þess að bæta fötluðu fólki upp desemberuppbótina,“ segir Þuríður.  Örorkulífeyrisþegar vissulega desemberuppbót en hún sé lág. „Og þessi hópur þarf örugglega meira á desemberuppbót að halda en margir aðrir.“

Þuríður segir eðlilegt að margir reiði sig á eingreiðsluna.

„Neyðin er svo stór,“ segir hún. „Og við skulum bara athuga að þessir peningar fara beint í neyslu þannig að ríkissjóður fær til baka um það bil helming, að minnsta kosti.“ 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×