Innlent

Jólahlaðborðin uppspretta hópsmita í faraldrinum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekki skynsamlegt að bjóða upp á hlaðborð eins og staðan er núna. 
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekki skynsamlegt að bjóða upp á hlaðborð eins og staðan er núna.  Vísir/Vilhelm

Tuttugu hafa nú greinst með ómíkron afbrigði kórónuveirunnar hér á landi. Sóttvarnalæknir segir jólahlaðborð hafa verið uppsprettu hópsýkinga í faraldrinum og hvetur þá sem standa fyrir slíkum samkomum að afgreiða matinn frekar beint á borðið.

Hundrað og tuttugu greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Tæpur helmingur þeirra sem greindist var í sóttkví. Tuttugu og einn liggur nú inni á sjúkrahúsum á landinu með Covid-19 en ellefu þeirra eru óbólusettir. Fimm eru á gjörgæslu og eru þeir allir í öndunarvél.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir tölur gærdagsins hærri en hann hefði viljað sjá. 

„Við erum að sjá svona hópsýkingar koma upp og þá einkum í tengslum við til dæmis jólahlaðborð og því um líkt eins og við höfum lýst áður. Það virðist vera töluvert mikill áhættuþáttur. Þannig við höfum verið að hvetja og viljum hvetja þá sem eru að standa fyrir svona samkomum að kannski að reyna að standa ekki fyrir hlaðborðum heldur reyna að afgreiða frekar í sæti.“

Hann segir svipað uppi í gangi á hinum Norðurlöndunum. 

„Við að fá líka svona upplýsingar frá hinum Norðurlöndunum um stórar hópsýkingar í kjölfarið og til dæmis í Noregi þar sem þetta ómíkron-afbrigði er að koma upp í akkúrat í svona stöðu. Þannig þetta virðist vera töluverður áhættuþáttur og við erum að sjá aukningu á þessu ómíkron-afbrigði.“

Hér á landi hefur fjölgað í hópi þeirra sem greinst hafa með ómíkron-afbrigði veirunnar. 

„Við erum komin upp í tuttugu tilfelli sem hafa greinst og þau tengjast útlöndum. Þetta er sem sagt þetta Akranessmit sem tengist útlöndum og svo eru fólk sem er að koma frá Þýskalandi og frá Danmörku og frá Írlandi. Þannig að þetta er svona sama sagan og á hinum Norðurlöndunum líka.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×