Innlent

Fá ekki krónu þrátt fyrir mistök lögmanns

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Íslenska ríkið og fyrrverandi lögmaður hjóna hafa verið sýknuð af kröfu hjónanna um að ríkinu og lögmanninum bæri að greiða þeim 25,8 milljónir króna vegna mistaka lögmannsins og meintrar ólögmætrar nauðungarsölu sýslumanns á íbúð í þeirra eigu.

Málið snerist um nauðungarsölu á fasteign sem lokið var í september 2018. Hjónin leituðu til ótilgreinds lögmanns til þess að gæta hagsmuna þeirra í nauðungarsölumálinu.

Hjónin byggðu skaðabótakröfu sína á hendur ríkinu á þeim grundvelli að sú ákvörðun fulltrúa sýslumanns að láta beiðnir um nauðungarsölu á íbúðunni fram að ganga hafi verið andstæð lögum um nauðungarsölu. 

Byggðist það á því að þau töldu veðrétt fjárnámanna sem þær byggðust á hafa verið fallinn niður þegar beiðnir um nauðungarsölu bárust embætti sýslimanns. Vísa hafi átt þeim frá.

Þá töldu hjónin að umræddur lögmaður hafi gert mistök þar sem hann hafi átt að tilkynna fulltrúa sýslumanns við fyrstu eða aðra fyrirtöku málsins, að þau hyggðist bera gildi nauðungarsölunnar undir héraðsdóm. Þá töldu þau hann einnig hafa átt að tilkynna héraðsdómi þessa fyrirætlun þeirra innan réttra tímamarka. Töldu það að ef hann hefði gert það hefði nauðungarsalan fallið niður.

Gerðu hjónin kröfu um að fá greiddar 25,8 milljónir króna vegna málsins.

Allt bendi til þess að mistök lögmannsins hafi ekki skipt máli

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur er fallist á það að lögmaðurinn hafi gert mistök þegar hann tilkynnti héraðsdómi með tölvupósti að hjónin hyggðust leita réttar síns vegna málsins. Telur héraðsdómur að tölvupóstur geti ekki talist vera skrifleg tilkynning, því hafi lögmaðurinn gert mistök með því að senda tilkyninningu í því formi.

Taldi héraðsdómur þó ekki að þessi mistök hafi leitt til fjárhagslegs tjóns fyrir hjónin enda bendi allt til þess að ekki hafi verið skilyrði til þess að ógilda nauðungarsöluna.

Íslenska ríkið var einnig sýknað af kröfu hjónanna en héraðsdómur taldi fullgilda heimild hafa verið fyrir nauðungarsölunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.