Um 40 prósent Reykvíkinga eru ánægðir með störf Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem Maskína gerði fyrir fréttastofu Stöðvar2, Vísis og Bylgjunnar. Könnunin var lögð fyrir á tveimur tímabilum, sú fyrri dagana 26. október til 3. nóvember og seinni 23. október til 2. desember. Svarendur í Reykjavík voru 601 og á landinu öllu 2.128.

Ánægja með borgarstjóra dvínar á milli mánaða en rúm 40 prósent Reykvíkinga sögðust ánægðir með störf borgarstjóra í febrúar en 39 prósent í nóvember. Aðrir landsmenn virðast ekki eins ánægðir með störf borgarstjóra en rúm 30 prósent annarra landsmanna sögðust ánægðir með störf borgarstjóra í febrúar en þeir voru rúm 28 prósent í nóvember.

Þá er ánægja Reykvíkinga misjöfn eftir búsetu. Rúm 60 prósent þeirra sem búsettir eru í Miðborg eða Vesturbæ eru ánægðir með störf borgarstjóra en einungis 28 prósent þeirra sem búa í Reykjavík austan Elliðaáa.
